Körfubolti

Kostuleg salsaspor dómara á Sauðárkróki

Sindri Sverrisson skrifar
Helgi Jónsson stóð sig vel á Sauðárkróki.
Helgi Jónsson stóð sig vel á Sauðárkróki. Stöð 2 Sport

Körfuboltadómarinn Helgi Jónsson stal senunni í leik Tindastóls og Keflavíkur með liprum danssporum, þegar liðin áttust við í Dominos-deild karla á sunnudagskvöld.

Nýkrýndir deildarmeistarar Keflavíkur áttu ekki í vandræðum með að leggja Tindastól að velli, 86-71, þrátt fyrir að leika án landsliðsmannsins Harðar Axels Vilhjálmssonar.

Það sem vakti þó sérstaka athygli og mikla kátínu Kjartans Atla Kjartanssonar og félaga í Dominos Körfuboltakvöldi var þó í eitt skiptið þegar Helgi dæmdi villu á Keflvíkinga. Hann gaf þá merki um villuna og tvö vítaskot um leið og hann tók suðrænt dansspor af bestu gerð.

Sjón er sögu ríkari en atvikið skemmtilega má sjá hér að neðan.

Klippa: Salsaspor dómara

Keflavík hefur eins og fyrr segir þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og er átta stigum á undan næsta liði, Þór Þorlákshöfn, þegar tvær umferðir eru eftir. Tindastóll er hins vegar í 7. sæti í mjög jafnri baráttu liðanna í 5.-9. sæti og gæti þurft að mæta Keflavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×