Viðskipti erlent

DNB sektað um sex milljarða vegna Sam­herja­málsins

Atli Ísleifsson skrifar
Kjerstin Braathen, forstjóri DNB, segir bankann taka gagnrýnina „mjög alvarlega“ og muni gangast undir greiðslu sektarinnar.
Kjerstin Braathen, forstjóri DNB, segir bankann taka gagnrýnina „mjög alvarlega“ og muni gangast undir greiðslu sektarinnar. EPA

Norska fjármálaeftirlitið hefur sektað DNB-bankann um 400 milljónir norska króna, um sex milljarða íslenskra króna, vegna brota á reglum um peningaþvætti í tengslum við Samherjamálið.

Frá þessu segir í frétt e24 en DNB sagði upp öllum viðskiptum sínum við Samherja í árslok 2019. Norska fjármálaeftirlitið gagnrýnir bankann harðlega í tilkynningu sinni.

Kjerstin Braathen, forstjóri DNB, segir bankann taka gagnrýnina „mjög alvarlega“ og muni gangast við greiðslu sektarinnar. Norska ríkið á 34 prósent hlutafjár í DNB-bankanum.

Fjármálaeftirlitið átelur bankann sérstaklega fyrir að hafa ekki kannað millifærslur milli tveggja fyrirtækja Samherja hjá bankanum eftir að fréttir bárust af starfsemi félagsins í Namibíu. Í 36 síðna skýrslu norska fjármálaeftirlitsins um DNB er fjallað um viðskipti Samherja og DNB, en skýrslan er frá í byrjun desember og var fyrst birt opinberlega í dag.

Málið allt má rekja til þess að gögnum var á sínum tíma lekið til Wikileaks sem leiddu til ásakana um að namibískir embættismenn hafi þegið mútur frá starfsmönnum Samherja í skiptum fyrir makrílkvóta.

Í febrúar síðastliðinn var greint frá því að rannsókn efnahagsbrotadeildar bankans á aðkomu DNB að viðskiptum Samherja og meintra mútubrota fyrirtækisins í Namibíu hefði verið lögð niður. Bankinn yrði því ekki ákærður í málinu, en rannsókn þar hafi ekki leitt í ljós upplýsingar sem gætu leitt til ákæru gegn einstaka starfsmönnum bankans.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×