Ísland hefur verið með á EM samfleytt frá árinu 2000 og verður því með á EM tólfta skiptið í röð. Aðeins fjórar aðrar þjóðir geta státað sig af því sama. Króatía, Frakkland og Spánn hafa alltaf verið með á EM, frá fyrsta mótinu árið 1994, og Danmörk líkt og Ísland alltaf frá árinu 2000.
Dregið verður í riðla á fimmtudaginn og verður Ísland í þriðja styrkleikaflokki. Tapið gegn Litáen í síðustu viku hafði mikið um það að segja en með sigri hefði Ísland endað efst í sínum undanriðli í stað þess að enda fyrir neðan Portúgal, og komist í annan styrkleikaflokk.
Það er reyndar huggun harmi gegn að Ísland er í sama styrkleikaflokki og Frakkland og getur því ekki lent í riðli með Frökkum.
Leikið verður í sex fjögurra liða riðlum á EM í janúar, eins og gert var í fyrsta sinn á síðasta EM, þar sem tvö efstu lið komast áfram í milliriðla.
Styrkleikaflokkarnir fyrir EM-dráttinn á fimmtudag:
Flokkur 1: Spánn, Króatía, Noregur, Slóvenía, Þýskaland, Portúgal.
Flokkur 2: Svíþjóð, Ungverjaland, Rússland, Danmörk, Serbía, Austurríki.
Flokkur 3: Slóvakía, Hvíta-Rússland, Ísland, Tékkland, Frakkland, Norður-Makedónía.
Flokkur 4: Holland, Svartfjallaland, Úkraína, Pólland, Bosnía, Litáen.
Þó að ekki verði dregið fyrr en á fimmtudaginn er búið að velja eitt lið í hvern riðil á EM. Þar af eru gestgjafarnir tveir en svo aðrar fjórar þjóðir sem EHF velur af markaðslegum ástæðum. Króatía verður í A-riðli í Szeged, Ungverjaland í B-riðli í Búdapest, Slóvenía í C-riðli í Debrecen, Þýskaland í D-riðli í Bratislava, Tékkland í E-riðli í Bratislava og Slóvakía í F-riðli í Kosice.
Spánn er ríkjandi Evrópumeistari eftir mótið sem fram fór í Svíþjóð, Noregi og Austurríki árið 2020. Ísland endaði þar í 11. sæti.