Körfubolti

Það varð einhver að skjóta og ég bara tók það á mig

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Ólafur var búinn að ná sér að viðtali loknu en hann skoraði rosalega flautukörfu sem tryggði Grindavík sigur.
Ólafur var búinn að ná sér að viðtali loknu en hann skoraði rosalega flautukörfu sem tryggði Grindavík sigur. Vísir/Sigurjón

Ólafur Ólafsson leikmaður Grindvíkinga var að vonum ánægður eftir sigur kvöldsins á KR. Aðspurður um hvað hann hefði hugsað þegar hann sleppti boltanum í lokaskotinu sagði hann að hann hafi haft góða tilfinningu.

,,Já bara það varð einhver að skjóta og ég bara tók það á mig, um leið og ég sleppti boltanum hugsaði ég: Nei andskotinn, þessi er í. Hann bara fór ofaní og bara geggjað.“

Grindvíkingar höfðu í raun tögl og haldir allan leikinn þangað til að KR komst yfir rétt í blálokin.

,,Við fórum að þröngva boltanum á hvorn annan, hættum að gera þetta auðvledlega fyrir okkur og fórum að flýta okkur. Svo hlaut að koma að því að Ty myndi detta í gang en okkur tókst sem betur fer að vinna leikinn.“

Það eru stór skörð hoggin úr Grindavíkurliðinu þessa dagana en bæði Dagur Kár og Marshall Nelson eru frá vegna meiðsla. Ólafur er virkilega ánægður með framlag þeirra sem hafa komið inn.

,,Það eru allir að tala um hvað Bragi er búinn að vera flottur, hann á það skilið. Hann er með þetta attitjúd sem bræður hans hafa líka, honum er alveg sama þó hann klikki, hann er alltaf að fara að skjóta aftur. Annars látum við þessir eldri hann heyra það líka ef hann tekur ekki skotin. Hann er vonandi bara búinn að vinna sér inn fleiri mínútur, enda mjög góður bara í körfubolta. Við vorum allir bara mjög flottir í dag.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×