Körfubolti

Suns hirti topp­sætið af Jazz, Lakers tapaði í endur­komu LeBron og Tatum jafnaði stigamet Larry Bird

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jayson Tatum jafnaði met Larry Bird í nótt.
Jayson Tatum jafnaði met Larry Bird í nótt. The Athletic

Alls fóru átta leikir fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Phoenix Suns vann stórsigur á Utah Jazz og hirti þar með toppsæti Vesturdeildarinnar.

Los Angeles Lakers tapaði gegn Sacramento Kings af öllum liðum í endurkomu LeBron James. Meisturunum hefur gengið skelfilega að undanförnu og eiga erfiða leiki á næstunni. Þá jafnaði Jayson Tatum stigamet Boston Celtics en hann skoraði 60 stig í framlengdum leik gegn San Antonio Spurs.

Phoeniz Suns gerði sér lítið fyrir og skellti Utah Jazz með 21 stigs mun í nótt, lokatölur 121-100. Um var að ræða uppgjör toppliða Vesturdeildarinnar. Utah auðvitað enn án Donavan Mitchell og það sást í nótt.

Suns var mun betri aðilinn frá upphafi og unnu sanngjarnan sigur. Devin Booker fór fyrir sínum mönnum í Suns með 31 stig. Chris Paul var með 12 stig og gaf níu stoðsendingar. Hjá Jazz var Bojan Bogdanović stigahæstur með 22 stig.

Jayson Tatum fór gjörsamlega á kostum í ótrúlegum leik Boston Celtics og San Antonio Spurs. Celtics vann þriggja stiga sigur í framlengdum leik, lokatölur 143-140 Celtics í vil.

Tatum skoraði 60 stig, gaf fimm stoðsendingar og tók átta fráköst í liði Boston. Þar með jafnaði hann stigamet Larry Bird fyrir Celtics.

Jaylen Brown kom þar á eftir með 17 stig. Hjá Spurs var DeMar DeRozan stigahæstur með 30 stig ásamt því að gefa 14 stoðsendingar. Þar á eftir komu Dejounte Murray og Lonnie Walker með 24 stig.

Russell Westbrook með þrennu er Washington Wizards vann Cleveland Cavaliers, lokatölur 122-93. Westbrook með 15 stig, 11 stoðsendingar og 12 fráköst.

Philadelphia 76ers vann stórsigur á Atlanta Hawks, 126-104. Þeir Joel Embiid, Ben Simmons og Tobias Harris gerðu allir 18 stig fyrir 76ers en Dwight Howard stal senunni með 19 stigum og 11 fráköstum á aðeins 17 mínútum.

Hjá Hawks var Trae Young með 32 stig á meðan Clitn Capela skoraði 11 stig og tók 15 fráköst.

LeBron James sneri aftur í lið Los Angeles Lakers og var ætlast til að meistararnir myndu rúlla yfir slakt lið Sacramento King, annað kom á daginn. Kings byrjaði leikinn betur en Lakers var yfir í hálfleik. Meistararnir virtust hafa gert út um leikinn í þriðja leikhluta en Kings vann fjórða leikhluta með 14 stiga mun og leikinn þar af leiðandi með fjórum stigum, lokatölur 110-106.

LeBron James skoraði 16 stig, gaf sjö stoðsendingar og tók átta fráköst í endurkomu sinni. Anthony Davis skoraði 22 stig og tók 11 fráköst. Hjá Kings var Tyrese Haliburton með 23 stig ásamt því að gefa 10 stoðsendingar. Þar á eftir kom Richaun Holmes með 22 stig.

Lakers hefur aðeins unnið þrjá af síðustu tíu leikjum sínum og situr nú í 5. sæti Vesturdeildar með 36 sigra og 27 töp. Það er mjög stutt í Dallas Mavericks [35-27] og Portland [35-28].

Lakers mætir Toronto Raptors í næsta leik en í kjölfarið koma fimm mjög erfiðir leikir gegn Denver Nuggets, Los Angeles Clippers, Portland, Suns og Knicks. Meistararnir þurfa því að fara stíga upp ef þeir ætla sér ekki að enda í sjöunda eða áttunda sæti.

Stöðuna í NBA-deildinni má sjá hér en Suns og Jazz eru efst í Vesturdeildinni með 45 sigra og 18 töp. Í Austurdeildinni er Nets efst með 43 sigra og 21 tap á meðan 76ers er í öðru sæti með 42 sigra og 21 tap.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.