Umfjöllun og viðtöl: Grinda­vík - ÍR 79-76 | Flautukarfa Kristins fullkomnaði endurkomu Grindavíkinga

Smári Jökull Jónsson skrifar
ÍR - Grindavík Dominos deild karla vetur 2021 körfubolti KKÍ / ljósm. Hulda Margrét
ÍR - Grindavík Dominos deild karla vetur 2021 körfubolti KKÍ / ljósm. Hulda Margrét Hulda Margrét

Grindvíkingar unnu gríðarlega mikilvægan sigur á ÍR í Domino´s deild karla í körfuknattleik í kvöld. Kristinn Pálsson tryggði liðinu sigur með þriggja stiga körfu um leið og lokaflautið gall.

Leikurinn í kvöld var mjög mikilvægur í baráttunni um sæti í úrslitakeppni. Með sigri hefðu ÍR-ingar jafnað Grindavík að stigum og farið upp fyrir þá í töflunni með betri árangur í innbyrðisviðureignum. Grindavíkursigur hefði hins vegar gert vonir ÍR um sæti í úrslitakeppni litlar sem engar en um leið verið stórt skref fyrir heimamenn upp á við.

Leikurinn var í járnum lengst af. Grindvíkingar voru oftar skrefinu á undan en þeir léku án sinna þriggja stigahæstu manna í vetur. Marshall Nelson og Dagur Kár Jónsson eru meiddir og  Joonas Jarveleinen í leikbanni.

Grindavík leiddi með einu stigi eftir fyrsta leikhluta en staðan í hálfleik var 38-37 ÍR í vil. Bæði lið áttu í ákveðnum vandræðum sóknarlega á köflum og töpuðu töluvert af boltum.

Í þriðja leikhluta var svipað uppi á teningunum en í upphafi þess fjórða virtust ÍR-ingar ætla að tryggja sér sigurinn. Þeir skelltu í lás í vörninni og náðu mest þrettán stiga forskoti þegar rétt rúmar fjórar mínútur voru eftir.

Þá tóku Grindvíkingar hins vegar leikhlé og sneru leiknum við. Þeir pressuðu vel á ÍR-liðið, unnu mikilvæga bolta og settu stór skot niður. Skyndilega var munurinn kominn í eitt stig og bæði lið fengu í kjölfarið möguleika á að skora sem þau nýttu ekki.

Þegar 40 sekúndur voru eftir fór Grindvíkingurinn ungi Bragi Guðmundsson á vítalínuna og jafnaði metin með því að skora úr öðru af vítaskotunum. ÍR fór í sókn en náðu ekki að nýta sér hana og Grindavík tók leikhlé þegar 16 sekúndur voru eftir.

Þeir nýttu þessar sekúndur vel. Þeim gekk illa að finna gott skotfæri þangað til Kristinn Pálsson fékk boltann með örlítið eftir á klukkunni. Hann skaut og boltinn söng í körfunni um leið og flautan gall. Grindvíkingar trylltust af gleði en ÍR-ingar sátu svekktir eftir.

Lokatölur 76-73 fyrir Grindavík.

Af hverju vann Grindavík?

Þeir sýndu gríðarlegan karakter á lokamínútunum þegar flest sund virtust lokuð. ÍR-ingar réðu ekki við pressuvörn heimamanna, töpuðu boltanum frekar ódýrt og Grindvíkingar settu niður stór skot.

Eins og Borche Ilievski, þjálfari ÍR, kemur inná í viðtali þá hlýtur vandamál ÍR-inga að vera andlegt að einhverju leyti. Grindvíkingar höfðu trú á sjálfum sér en ÍR-ingar fóru í skelina og koðnuðu niður.

Liðsheild Grindavíkur vann þennan leik og liðið þjappaði sér greinilega vel saman í fjarveru þeirra þriggja lykilmanna sem voru fjarverandi í dag.

Þessir stóðu upp úr:

Kazembe Abif var góður hjá Grindavík í kvöld, skoraði 19 stig og tók 15 fráköst. Hann tók sex sóknarfráköst sem voru gulls ígildi fyrir heimamenn. Hann lenti þó í villuvandræðum og þurfti að sitja á bekknum ansi margar mínútur í síðari hálfleik.

Kristinn Pálsson var sömuleiðis góður með 17 stig og 9 stoðsendingar og setti auðvitað sigurkörfuna mögnuðu. Þá átti Björgvin Hafþór Ríkharðsson fínan leik og fór oft illa með vörn ÍR-inga með hraða sínum og snerpu.

Þá er vert að minnast á innkomu hins unga Braga Guðmundssonar sem kom inn óhræddur, skoraði 9 stig og spilaði góða vörn.

Hjá ÍR var Evan Singletary bestur sóknarlega og Colin Pryor skilaði sínu. Þeir söknuðu hins vegar meira framlags frá lykilmönnum eins og Zvonko Buljan og Sigvalda Eggertssyni.

Hvað gekk illa?

Lokakafli ÍR var auðvitað hræðilegur fyrir Breiðhyltinga. Ákefðin í pressuvörn Grindvíkinga kom gestunum í opna skjöldu og sóknarleikur þeirra varð stirður og leikmenn virtust taugaveiklaðir í sínum aðgerðum.

Grindvíkingar hittu mjög illa af vítalínunni og virtist sem það myndi kosta þá sigurinn. Þeir hins vegar völtuðu yfir ÍR í frákastabaráttunni, tóku næstum tvöfalt fleiri fráköst og tóku til dæmis fimmtán sóknarfráköst gegn tveimur hjá gestunum.

Hvað gerist næst?

Grindavík leikur næst gegn KR í DHL-höllinni á sunnudag. Þeir endurheimta þá Joonas Jarveleinen úr leikbanni en verða að öllum líkindum án Dags Kár Jónssonar og Marshall Nelson sem leikur ekki meira á tímabilinu. Með sigri þar jafna þeir KR að stigum.

ÍR fær Stjörnuna í heimsókn í Hertz-hellinn í Breiðholti. ÍR þarf nauðsynlega á sigri að halda og Breiðhyltingar þurfa að vara sig því liðin fyrir neðan þá í töflunni hafa verið að ná í stig að undanförnu.

Daníel Guðni: Ef menn fá sjálfstraust eru meiri líkur á að skotin fari niður

Daníel Guðni Guðmundsson var afar sáttur með sigurinn á ÍR í kvöld.Vísir

Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Grindavíkur var eiginlega ekki búinn að jafna sig þegar blaðamaður ræddi við hann eftir sigurinn á ÍR í kvöld.

„Þetta var mikil geðshræring. Við vorum búnir að leggja mikla vinnu í þennan leik, hvernig við ætluðum að sækja á svæðisvörnina þeirra og líka maður á mann. Einnig varnarlega og þetta tókst vel í kvöld. Menn voru orðnir þreyttir, við vorum í villuvandræðum en það lögðu allir í púkkið og gerðu það sem þeir áttu að gera,“ sagði Daníel Guðni hæstánægður eftir leik.

Grindvíkingar sýndi mikinn karakter og unnu upp þrettán stiga forskot gestanna á síðustu fjórum mínútunum en það hefur einmitt aðeins verið rætt um karakter liðsins í vetur, sérstaklega eftir tapið gegn Njarðvík á dögunum.

„Málið með Njarðvíkurleikinn var að menn fóru í einhvern eigin hagsmunaleik, fóru að sækja á vörnina þeirra upp á eigin spýtur. Við ræddum saman og áttum góða æfingu eftir Njarðvíkurleikinn og ákváðum að við værum betri en þetta.“

„Við áttum góðan leik varnarlega síðast en sóknarleikurinn var ekki alveg að ganga. Hann var svo sem heldur ekkert að ganga neitt vel í kvöld. Við hittum úr sex þriggja stiga skotum og þrjú af þeim komu á síðustu mínútunum. Sigur er sigur og þetta voru gríðarlega stór tvö stig fyrir okkur.

Grindvíkingum gekk sérstaklega illa að skora í byrjun fjórða leikhluta og gestirnir náðu þá mest þrettán stiga forskoti sem Grindvíkingar unnu upp með því að skora síðustu sextán stig leiksins.

„Ég vildi að við myndum pressa á þá. Við ákváðum að byrja á því þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir, gerðum það af miklum ákafa og komum þeim í opna skjöldu. Þeir brugðust ekki nógu vel við því og mínir menn fengu sjálfstraustið. Ef menn fá sjálfstraust eru meiri líkur á að skotin fari niður.“

Borche Ilievski, þjálfara ÍR, fannst dómararnir leyfa of mikla hörku á kaflanum sem Grindvíkingar voru að vinna upp forskot ÍR.

„Ég er ekki sammála því. Mér fannst kallaðar villur á okkur sem mér fannst ekki í takti. Mér fannst þeir fá að tala mjög opinskátt með ljótum orðum en það er kannski ástæðan fyrir því að minn maður situr uppi í stúku í leikbanni. Þeir fengu varla viðvörun en ég get ekki tekið undir þetta. Það er enginn raunveruleiki í þessu, bara upplifun hvers og eins.“

Grindvíkingar stigu stórt skref í átt að úrslitakeppni með sigrinum og skildu ÍR-inga fjórum stigum fyrir aftan sig.

„Leitt að við vorum fáliðaðir í kvöld. Marshall er fingurbrotinn, Joonas í banni og Dagur Kár er frá í einhvern tíma. Við þurfum bara að taka stöðuna á því og ætlum ekkert að ýta á hann með það. Við undirbúum okkur bara vel fyrir næsta leik.“

Borche: Ég reyndi að vekja strákana

Borche Ilievski sagði vandamál síns liðs hljóta að vera andlegt.vísir/daníel

Borche Ilievski þjálfari ÍR-inga var vitaskuld afar svekktur eftir tap ÍR í kvöld og var ósáttur með dómgæsluna í fjórða leikhlutanum.

„Þetta hlýtur að vera eitthvað andlegt vandamál eins og áður í vetur. Í öðru lagi fannst mér dómararnir leyfa of mikla hörku á þessum síðustu þremur og hálfu mínútu. Mínir menn voru að fara í sniðskot með mann á bakinu og það var aldrei dæmd villa,“ sagði Borche Ilievski í samtali við Vísi eftir leik.

„Þetta er búið og gert. Þegar við lentum í þessari stöðu þá voru Grindvíkingar einfaldlega sterkari. Þeir fundu að þeir gátu unnið leikinn og þeir gerðu það.“

Hann sagði möguleika ÍR á að ná sæti í úrslitakeppninni vera minni eftir tapið.

„Eftir hvern tapleik dettum við lengra niður og nú þurfum við að einbeita okkur að því að halda sæti okkar í deildinni. Við eigum erfiða dagskrá framundan og ef við byrjum ekki að gera eitthvað og förum að vinna leiki þurfum við að hafa áhyggjur af okkar sæti.“

ÍR-ingar hefðu jafnað Grindvíkinga að stigum með sigri en eru nú aðeins tveimur stigum fyrir ofan liðin í þremur neðstu sætunum eftir að Haukar og Höttur unnu leiki sína í kvöld.

„Allt er mögulegt í þessari deild. Ég reyndi að vekja strákana og útskýra fyrir þeim hvernig staða okkar væri en ég fékk lítið um svör. Vonandi getum við mætt í Seljaskóla á mánudag með öðruvísi hugarfar, eins og gegn Keflavík en við þurfum bara að vinna leikinn.“

Kristinn: Ég sagði við Danna að ég væri tilbúinn

Úr fyrri leik ÍR og Grindavíkur í vetur.Vísir / Hulda Margrét

Kristinn Pálsson var hetja Grindvíkinga í Domino´s deildinni í kvöld þegar hann tryggði liðinu sigur á ÍR með magnaðri flautukörfu. Sigurinn færir Grindvíkinga skrefi nær úrslitakeppni.

„Þetta er geggjað. Ég veit ekki alveg hvernig mér líður eins og er en þetta var auðvitað svakalega mikilvægur sigur fyrir okkur varðandi að komast í úrslitakeppni. Að gera það án Marshall, Joonas og Dags er vel gert hjá okkur,“ sagði Kristinn eftir leik.

Eins og Kristinn nefndi voru þeir Joonas Jarveleinen, Dagur Kár Jónsson og Marshall Nelson fjarri góðu gamni í kvöld en þetta eru þrír stigahæstu leikmenn Grindavíkur í vetur.

„Við spilum sem lið mest allan leikinn, aðeins í byrjun fjórða leikhluta sem við gáfum aðeins eftir. Að setja svona skot er draumur allra, að vinna leik á einu skoti. Ég tók það á mig, sagði við Danna að ég væri tilbúinn og hann treysti mér,“ bætti Kristinn við.

Hann var þó ekki viss um að skotið myndi rata rétta leið eftir að hann sleppti boltanum.

„Ég stökk aðeins á hliðina þannig að hann var hálfur ofan í þegar ég sá hann. Svo sá ég hann fara niður og bara hljóp af stað. Ég vissi eiginlega ekkert hvað ég átti að gera.“

Grindvíkingar lentu í vandræðum í fjórða leikhlutanum og náðu ÍR-ingar mest 13 stiga forystu þegar innan við fimm mínútur voru eftir.

„Þetta var svolítið erfitt hjá okkur. Þeir lokuðu betur á okkur og völdu hverjir voru að klára sóknirnar hjá okkur. Síðan fórum við að finna opnanir, vorum að hlaupa eitt kerfi mjög mikið. Síðan voru menn að setja risa skot, Björgvin Hafþór (Ríkharðsson) setti til dæmis mjög mikilvægt skot til að halda okkur inni í leiknum.“

„Það kemur maður í manns stað. Við þurfum að sýna úr hverju við erum byggðir, hver ætlar að taka af skarið og taka við keflinu. Ef menn eru meiddir þá þarf næsti maður að stíga upp og það gerðist svo sannarlega í dag,“ sagði Kristinn Pálsson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira