Körfubolti

Valur niðurlægði KR

Anton Ingi Leifsson skrifar
Valur er á mikilli siglingu í deildinni.
Valur er á mikilli siglingu í deildinni. vísir/vilhelm

Það var ekki mikil spenna í leik Vals og KR í Domino's deild kvenna að Hlíðarenda í kvöld en Valur vann að endingu 106-52 sigur í Reykjavíkurslagnum.

Það var fljótt ljóst í hvað stefndi. Valur gerði 38 stig í fyrsta leikhlutanum gegn tólf stigum KR og leiddi 58-21 í hálfleik.

Áfram héldu yfirburðirnir í síðari hálfleik en Valur vann alla þrjá leikhlutana, í síðari hálfleik þó „bara“ með sex og átta stigum.

Helena Sverrisdóttir skilaði flestum framlagsstigum hjá Val. Hún var með fjórtán stig, sex fráköst og sex stoðsendingar en ansi margir leikmenn lögðu sitt að mörkum í sigrinum.

Dagbjört Dögg Karlsdóttir skilaði til að mynda tuttugu stigum og Ásta Júlía Grímsdóttir tíu stigum og tólf fráköstum.

Í liði KR var Annika Holopainen í sérflokki. Hún gerði 23 stig og tók fimm fráköst. Næst kom Taryn Ashley Mc Cutcheon með átta stig.

Valur er á toppi deildarinnar með 26 stig en KR er á botninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×