Íslenski boltinn

Pepsi Max-spáin 2021: Engin lalalala-læti án Valdimars

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Fylki 8. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar.

Ingvi Þór Sæmundsson, Runólfur Trausti Þórhallsson og Sindri Sverrisson skrifa
Fylkismenn hafa siglt nokkuð lygnan sjó í Pepsi Max-deildinni síðan þeir komust upp haustið 2017. vísir/vilhelm

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Fylki 8. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Pepsi Max-deild karla með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með leik Vals og ÍA föstudagskvöldið 30. apríl. Valsmenn eiga titil að verja en þeir urðu Íslandsmeistarar í 23. sinn í sögu félagsins í fyrra.

Íþróttadeild spáir Fylki 8. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar og að liðið lendi tveimur sætum neðar en á síðasta tímabili.

Atli Sveinn Þórarinsson og Ólafur Stígsson gerðu góða hluti á sínu fyrsta tímabili með Fylki í fyrra. Árbæingar unnu níu leiki (aðeins Valur og FH unnu fleiri), töpuðu átta en gerðu bara eitt jafntefli. Fylkismenn komst á toppinn eftir fjóra sigra í röð snemma móts en enduðu í 6. sæti með 28 stig.

Valdimar Þór Ingimundarson, sem var einn allra besti leikmaður deildarinnar í fyrra, er horfinn á braut og stærsta áskorun þeirra Atla Sveins og Ólafs er að finna leiðir að fylla hans skarð.

Eins og oftast áður byggir Fylkir upp á heimastrákum auk þess sem liðið hefur verið duglegt að krækja í unga og efnilega leikmenn úr neðri deildunum eins og Arnór Gauta Jónsson, Unnar Stein Ingvarsson og Þórð Gunnar Hafþórsson.

Síðasta tímabil hjá Fylki

  • Sæti: 6
  • Stig: 28
  • Vænt stig (xP): 22,7
  • Mörk: 27
  • Mörk á sig: 30
  • Vænt mörk (xG): 32,5
  • Vænt mörk á sig: 38,1
  • Með boltann: 49%
  • Heppnaðar sendingar: 77,9%
  • Skot: 12,1
  • Aðalleikaðferðir: 3-4-1-2 (26%), 4-2-3-1 (24%), 4-4-1-1 (22%)
  • Meðalaldur: 24,9
  • Markahæstur: Valdimar Þór Ingimundarson (8)

Liðið og lykilmenn

Líklegt byrjunarlið Fylkis.vísir/toggi

Ásgeir Eyþórsson (f. 1993): Þessi örvfætti miðvörður hefur heldur risið undir ábyrgð og eflst síðustu tvö tímabil. Hefur allan sinn feril leikið með Fylki og blæðir appelsínugulu. Hefur verið iðinn við markaskorun og skoraði þrjú á síðustu leiktíð sem og árið þar á undan. Hann þarf þó að bæta sig enn frekar varnarlega þar sem Fylkir lak þrjátíu mörkum á síðustu leiktíð, í aðeins 18 leikjum. Ásgeir verður nýorðinn 28 ára gamall er deildin hefst og er talinn einn af betri miðvörðum deildarinnar. Hann þarf að standa undir því ef Fylkir ætlar sér ofar en 6. sætið sem liðið náði í fyrra.

Unnar Steinn Ingvarsson (f. 2000): Ungur miðjumaður sem Fylkir sótti í Safamýrina. Var fastamaður í liði Fram undanfarin þrjú ár en hefur nú ákveðið að taka skrefið upp í efstu deild. Harður í horn að taka og með góða spyrnugetu. Að setja leikmann á sínu fyrsta tímabili í efstu deild sem lykilmann gæti verið djarft en það er ljóst að Árbæingar búast við miklu af Unnari í sumar. Honum er ætlað að fylla upp í tómarúmið sem myndaðist þegar Ólafur Ingi Skúlason lagði skóna hilluna svo það verða öll augu á þessum unga miðjumanni í sumar.

Djair Parfitt-Willaims (f. 1996): Skemmtilegur leikmaður sem kom vel inn í lið Fylkis á síðasta ári. Lunkinn með boltann, góður í einn á einn stöðum sóknarlega ásamt því að ógna alltaf með hraða sínum og krafti. Árbæinar vonast til að hann nýti færin sín örlítið betur í sumar sem og samherjar hans. Parfitt-Williams skoraði tvö mörk og lagði upp tvö til viðbótar á síðustu leiktíð en þau hefðu eflaust átt að vera aðeins fleiri. Ætti að njóta sín betur í ár þar sem jafnaldri hans og fyrrum samherji úr unglingaliði West Ham United, Jordan Brown, er mættur í Lautina.

Ásgeir Eyþórsson, Unnar Steinn Ingvarsson og Djair Parfitt-Willaims.vísir/hag/daníel/vilhelm

Leikstíllinn

Í þremur orðum: Beinskeyttur, hraður en torskilinn.

Fylkir hefur uppspil sitt úr markspyrnum nær alltaf á löngum bolta upp völlinn. Kemur fyrir að boltanum er spilað stutt ef andstæðingar setja litla sem enga pressu. Þegar boltinn er í leik breytist það töluvert og Aron Snær Friðriksson rúllar eða grýtir knettinum út á annan hvorn vænginn.

Eiga það til að hápressa en sú pressa er frekar torskilin. Byggist hún aðallega á fremstu 2-3 leikmönnum liðsins og einstaka sinnum framherjanum einum saman. Á meðan virðist liðsfélagarnir nýta sér tímann til að koma sér í varnarstöðu. Þetta er þó breytilegt eftir mótherjum og oftar en ekki tekst liðinu að búa til góð markfæri eftir að vinna boltann í kringum miðlínu.

Sóknarleikur Fylkis byggist að mestu á því að sækja hratt. Síðasta sumar komu mörkin aðallega eftir snarpar sóknir eftir að boltinn vannst við miðju eða á aftasta þriðjung. Einnig komu nokkur mörk eftir föst leikatriði sem og eftir að liðið vann fyrsta eða seinni boltann í kjölfar langs bolta frá Aroni Snæ markverði.

Þegar liðið nær upp góðu spili reynir það að spila sig í hálfsvæðin. Síðasta sumar fór töluvert af sóknum í gegnum Valdimar og verður forvitnilegt að sjá hvernig það gengur að fylla hans skarð í sumar.

Markaðurinn

vísir/toggi

Mestu munar auðvitað fyrir Fylki að hafa selt Valdimar undir lok síðasta tímabils. Ólafur Ingi er jafnframt hættur og spurning hver áhrifin verða af því að missa alla hans reynslu og kænsku. Þótt hann hafi verið á síðustu metrunum sem leikmaður í fyrra þá var hann einnig hluti af þjálfarateyminu.

Djair reyndist Fylki vel síðasta sumar og nú hafa Árbæingar fengið félaga hans, Jordan Brown, í sóknarlínuna. Þeir voru saman í unglingaakademíu West Ham. Brown er 24 ára og hefur þegar komið við í Þýskalandi (4. deild), Tékklandi og Kanada, og potað inn mörkum. Það verður spennandi að sjá hvað þessi leikmaður, sem náði að spila einn leik fyrir aðallið West Ham, hefur fram að færa en hann samdi við Fylki til tveggja ára.

Fylkir fékk Torfa Tímoteus Gunnarsson sem er öflugur miðvörður en var þjakaður af meiðslum síðasta tímabil. Dagur Dan, 21 árs sonur goðsagnarinnar Þórhalls Dan Jóhannssonar, er snúinn heim í Árbæinn, og Fylkir fékk annan efnilegan miðjumann í Unnari Steini Ingvarssyni sem var nálægt því að fara upp um deild með Fram.

Orri Hrafn Kjartansson verður nú með frá byrjun eftir að hafa spilað síðustu leikina í fyrra á miðjunni. Fylkismenn töldu sig hins vegar hafa efni á að lána hinn kraftmikla Arnór Gauta frá félaginu rétt fyrir mót. Þeir hafa einnig misst menn á borð við Arnar Svein, Hákon Inga og Hewson sem allir spiluðu talsvert í fyrra en voru þó ekki í stórum hlutverkum.

Hvað vantar? Fylkismenn þurfa helst öflugan kant- eða sóknarmann sem tryggir liðinu mörk, nema að Brown reynist þeim mun betri.

Að lokum

Valdimar Þór Ingimundarson skilur eftir sig stórt skarð hjá Fylki.vísir/daníel

Fylkir er í svipaðri stöðu eins og nokkur lið sem þurfa að aðlagast lífinu eftir að hafa misst sinn besta eða sína bestu menn. Valdimar var allt í öllu í sóknarleik Fylkismanna í fyrra og fyrir utan hann er enginn áreiðanlegur markaskorari í hópnum. Von er á minni látum í sókninni, eins og nafni hins týnda sonar söng um á sínum tíma.

Stoðirnar eru þó nokkuð sterkar og Fylkismenn áttu fínt undirbúningstímabil. Þeir eru með jafnan leikmannahóp og ágætis breidd sem gæti komið að góðum notum í þéttri leikjadagskrá í byrjun móts. Þá spretta alltaf upp nýir leikmenn í Árbænum sem koma á óvart eins og Nikulás Val Gunnarsson í fyrra.

Fylkisliðið ætti að vera um miðja deild eins og síðustu ár, það er of gott til að sogast í fallbaráttu en það er erfitt að sjá Árbæinga gera betur en í fyrra.


Tengdar fréttir






×