Handbolti

Milljónir í sektir vegna dómaraskorts

Sindri Sverrisson skrifar
Akureyringurinn Sigurður H. Þrastarson er einn af alþjóðlegum dómurum landsins.
Akureyringurinn Sigurður H. Þrastarson er einn af alþjóðlegum dómurum landsins. vísir/hulda

Handknattleiksfélög landsins hafa ekki staðið sig sem skyldi í að ala upp dómara í sínum röðum og uppfylla aðeins fjögur félög kröfur dómaranefndar HSÍ í þessum efnum.

HSÍ er heimilt að sekta félög um 5.000 krónur fyrir hvern meistaraflokksleik sem félag leikur án þess að hafa útvegað tilskyldan fjölda dómara.

Sem dæmi má nefna að FH á að útvega fjóra dómara en hefur aðeins tilnefnt þrjá. Á yfirstandandi leiktíð hefur karlalið FH leikið 15 leiki og kvennaliðið 12 leiki, og lið FH því samtals 27 leiki. Það þýðir sekt upp á 135.000 krónur.

Taflan sýnir fjölda deildardómara hjá hverju félagi og kröfu dómaranefndar HSÍ um fjölda dómara.Úr ársskýrslu HSÍ 2021

Staðan hjá FH er þó betri en hjá mörgum öðrum. Félög á borð við Stjörnuna og Gróttu ættu að útvega fjóra dómara hvort en útvega engan. Samtals greiða félögin milljónir í sektir til HSÍ vegna dómaraskorts.

Aðeins Fram, Haukar, KA og Selfoss tilnefna nægilega marga dómara samkvæmt kröfum dómaranefndar. Fram er með flesta dómara eða sjö.

Reynir Stefánsson, formaður dómaranefndar HSÍ, segir það miður að félögin skuli ekki standa sig betur í að ala upp dómara.

„Þetta hefur staðið í stað síðustu ár. Það eru alltaf sömu félögin sem standa sig og svo hin sem standa sig ekki en nota bara einhverjar afsakanir,“ sagði Reynir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.