Körfubolti

Sjáðu ó­trú­lega sigur­körfu Gonzaga sem á enn mögu­leika á hinu full­komna tíma­bili

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jalen Suggs mun líklega aldrei skora aðra eins körfu og hann gerði í nótt.
Jalen Suggs mun líklega aldrei skora aðra eins körfu og hann gerði í nótt. Tim Nwachukwu/Getty Images

Gonzaga Bulldogs er komið í úrslitaleik marsfársins í körfubolta. Flautukarfa Jalen Suggs sem tryggði Gonzaga sigur gegn UCLA í framlengdum leik var ekkert annað en stórkostleg, hana má sjá hér að neðan ásamt öllu því helsta úr leiknum.

Marsfárið [e. March Madness] er einn stærsti íþróttaviðburður Bandaríkjanna. Þar mætast bestu háskólalið landsins í útsláttarkeppni sem mun skera úr um hvað sé besta lið landsins. Áhorfið er gríðarlegt og slær flestum NBA-viðureignum við. Hvað þá þegar áhorfendur eru ekki leyfðir á leikjunum.

Baylor Bears höfðu þegar tryggt sér farseðilinn í úrslit en í nótt fór leikur Gonzaga Bulldogs og UCLA Bruins fram. Sigurvegarinn myndi mæta Baylor í úrslitum. Fyrir fram voru Gonzaga sigurstranglegri en liðið hefur ekki enn tapað leik á tímabilinu. Gonzaga hefur leikið 31 leik og landað 31 sigri.

Takist þeim að vinna Baylor á þriðjudaginn verða þeir fyrsta liðið í karlaflokki til að fara taplaust í gegnum tímabil síðan 1976.

Leikurinn í nótt var mögnuð skemmtun, sóknarleikur beggja liða var til fyrirmyndar og eftir venjulegan leiktíma þurfti að framlengja þar sem staðan var jöfn, 81-81. Það virtist sem UCLA hefði tryggt sér aðra framlengingu með því að jafna metin í 90-90 þegar 3.3 sekúndur voru eftir á klukkunni.

Jalen Suggs hafði lítinn áhuga á að fara í aðra framlengingu, hann fékk boltann og óð yfir miðju. Hann tók skot rétt fyrir framan miðju sem small í glerinu og ofan í körfuna er lokaflautið gall.

„Ég hef alltaf viljað stökkva upp á borð eins og Kobe og D-Wade,“ sagði Suggs að leik loknum. Fagnið má sjá hér að neðan sem og hvaðan hann fékk hugmyndina.

Hér að neðan má sjá það helsta úr leiknum sem var virkilega góð skemmtun. Jalen Suggs skoraði 16 stig í leiknum fyrir Gonzaga en Drew Timme var stigahæstur með 25 stig, þar á eftir kom Joel Ayayi með 22 stig.

Hjá UCLA var Johnny Juzang stigahæstur með 29 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×