Viðskipti innlent

Ísmar festir kaup á Fálkanum

Eiður Þór Árnason skrifar
Ísmar hyggst flytja starfsemi sína í húsakynni Fálkans í Kópavogi. 
Ísmar hyggst flytja starfsemi sína í húsakynni Fálkans í Kópavogi.  Aðsend

Gengið hefur verið frá kaupum sölu- og þjónustufyrirtækisins Ísmars á Fálkanum. Alls starfa 32 starfsmenn hjá félögunum en ekki er gert ráð fyrir að starfsfólki fækki í tengslum við kaupin.

Fram kemur í tilkynningu að Ísmar muni á næstu vikum flytja inn í starfsstöð Fálkans á Dalvegi 10-14 í Kópavogi þar sem félögin ætli að nýta sameiginlega aðstöðu fyrir verslun, vörugeymslu og skrifstofur.

„Með kaupunum og samrekstri félaganna verður til sterk og öflug eining sem þjónar breiðum hópi viðskiptavina með áherslu á stuðning við margvíslega innviði í íslensku samfélagi.“

Ísmar hefur á undanförnum árum lagt áherslu á sölu, ráðgjöf og þjónustu á tæknibúnaði, svo sem mælitækjum og vélstýringum sem nýta sér GPS tækni, lasertæki, búnað til sjómælinga, hitamyndavélar, fjarskiptabúnað, loftræstibúnað og hússtjórnarkerfi.

Áherslur Fálkans hafa verið á sölu og þjónustu á tæknivörum tengdum bíla- og vélahlutum, véltæknivörum og raftæknivörum. Jafnframt segir í tilkynningu að samrekstur félaganna skapi aukin tækifæri til bættrar þjónustu við viðskiptavini.

Fjár­fest­ir­inn Bjarni Ármanns­son á 51% hlut í Ísmar í gegnum fé­lag sitt Sjáv­ar­sýn ehf. og á framtakssjóðurinn Freyja, sem rekinn er af Kviku eignastýringu, 49% hlut.

Verða rekin í sitthvoru lagi 

Gunnar Sverrisson, framkvæmdastjóri Ísmar mun taka við sem framkvæmdastjóri beggja félaga sem verða þó rekin í sitthvoru lagi. Gunnar segir að það sé mikið fagnaðarefni að stíga þetta stóra skref og fá reynslumikla starfsmenn Fálkans til liðs við fyrirtækið.

„Það eru spennandi tímar framundan og verður gaman að vinna með frábæru starfsfólki, viðskiptavinum og birgjum í að leiða uppbyggingu innviða á Íslandi á komandi árum,“ segir hann í tilkynningu.

Félögin starfa bæði að mestu á fyrirtækjamarkaði en kjarni starfseminnar er þjónusta, ráðgjöf og sala á tækni- og vélbúnaði til m.a. verkstæða, stóriðju, opinberra aðila, útgerða, verktaka, verkfræðistofa og orkufyrirtækja. Rekstur beggja félaga er sagður hafa gengið vel á undanförnum árum.

Fréttin hefur verið uppfærð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×