Golf

Nýi meistarinn vorkenndi áhorfendunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Billy Horschel með bikarinn sem hann fékk fyrir sigurinn í heimsmótinu í holukeppni.
Billy Horschel með bikarinn sem hann fékk fyrir sigurinn í heimsmótinu í holukeppni. AP/David J. Phillip

Billy Horschel tryggði sér sigur í heimsmótinu í holukeppni í gær eftir sigur á Scottie Scheffler í úrslitaleiknum.

Horschel var tveimur holum yfir á móti Scheffler eftir að þeir kláruðu sautjándu og næstsíðustu holu úrslitaleiksins. Úrslitin voru þar með ráðin.

Horschel vann sex af sjö leikjum sínum í keppninni sem er lengsta golfmót ársins enda byrjuðu keppendur á miðvikudaginn. Horschel þurfti að klára 122 holur til að tryggja sér titilinn.

Horschel náði þó bara einum fugli í úrslitaleiknum þegar hann vippaði í holuna á fimmtu af um tólf metra færi.

„Þetta var ekki fallegt,“ sagði Billy Horschel eftir að sigurinn var í höfn. „Ég vorkenni áhorfendunum að þurfa að horfa á þetta því það voru engin góð golfhögg eða mjög fá allavega. Þeir sáu aftur á móti mikið af losarabrag og pör voru oft að vinna holurnar,“ sagði Horschel.

Billy Horschel er 34 ára gamall og hefur hæst komist í tólfta sæti heimslistans sem var í nóvember 2014. Hann varð FedEX bikarmeistari árið 2014 og hans besti árangur á risamóti var fjórða sæti á Opna bandaríska mótinu árið 2013.

Billy Horschel kom inn í mótið í 32. sæti styrkleikalistans en náði að vinna sinn fyrsta einstaklingstitil í næstum því fjögur ár. Hann hafði aldrei áður komist í gegnum riðlakeppnina á heimsmótinu í holukeppni.

„Þú veist aldrei hvenær þú ert að fara að vinna. Þú veist aldrei hvenær þinn tími mun koma,“ sagði Horschel.

Horschel vann Victor Perez í undanúrslitunum en Scheffler vann Matt Kuchar i í undanúrslitaleik sínum eftir að hafa áður slegið út þá Ian Poulter og Jon Rahm.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.