Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Valur 78-80 | Enn tapa Njarðvíkingar

Atli Arason skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Valur byrjaði leikinn í kvöld betur og komst snemma í fimm stiga forystu. Við það kveiknaði þó á heimamönnum sem skoruðu næstu 10 stig í röð með Maciek Baginski í fararbroddi en á þessum tímapunkti setti hann niður tvær mikilvægar þriggja stiga körfur. Staðan fór úr 2-7 í 12-7. Við það myndaðist mikil stemning í Ljónagryfjunni, bæði í stúkunni og inn á vellinum hjá heimamönnum sem héldu forystunni út leikhlutan sem lauk 22-17.

Annar leikhlutinn tafðist aðeins eftir að Finnur Freyr og Kristinn dómari tóku dágóðan tíma í að útkljá lokasekúndur fyrsta leikhluta. Njarðvíkingar í stúkunni og inn á vellinum voru orðnir mjög pirraðir á þessari töf og hún virðist hafa farið eitthvað öfugt ofan í heimamenn þar sem Valur skoraði fyrstu fjögur stig leikhlutans. Njarðvík kemst svo aftur í gang og ná lengi vel að halda Völsurum frá sér í 3-6 stiga fjarlægð næstu mínúturnar sem fylgdu. Þegar þrjár mínútur eru eftir af öðrum leikhluta jafnar Kristófer Acox leikinn og kemur þeim svo yfir strax í kjölfarið eftir að hann nær sjálfur að stela boltanum af Rodney Glasgow og keyra á körfu Njarðvíkur. 32-34. Við tóku æsispennandi mínútur þar sem liðin skiptust á að ná forustu og jafna hvort annað jafn óðum. Síðustu mínútna náði Njarðvík þó að fjarlægja sig aðeins frá gestunum og liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik í stöðunni 41-38.

Njarðvík hélt uppteknum hætti í þriðja leikhluta og komust heimamenn mest í 10 stiga forystu. Þegar rúm mínúta er eftir af leikhlutanum er staðan 63-53 fyrir heimamenn eftir körfu frá Antonio Hester. Gestirnir gera þó síðustu 4 stig leikhlutans sem lýkur í stöðunni 63-57 og allt stefndi í æsispennandi lokaleikhluta.

Valur hélt þá áfram að keyra yfir heimamenn í fjórða leikhluta. Við tók 2-14 kafli frá gestunum og um miðjan fjórða leikhluta var staðan allt í einu orðinn 65-71 fyrir Val. Gestirnir komust mest í átta stiga forystu þegar 3 mínútur lifðu eftir af leiknum þegar Pavel setur niður þriggja stiga körfu, staðan þá 72-80. Það var þó síðasta karfa Vals í leiknum. Njarðvíkingar tóku við, skoruðu 6 stig í röð og leikurinn allt í einu aftur orðinn æsispennandi, 78-80. Miguel Cardoso fær tækifæri til að gera út um leikinn þegar 13 sekúndur eru eftir af leik klukkunni. Cardoso er þá sendur á vítalínuna en hann klikkar á báðum skotunum sínum og Njarðvíkingar eiga boltann. Einar, þjálfari Njarðvíkur, tekur þá leikhlé og stillir upp í kerfi. Kerfi Njarðvíkinga endar á því að Jón Arnór fær boltann í hendurnar en þriggja stiga tilraun hans klikkar og leiktíminn rennur út. Grátleg tap fyrir heimamenn sem hafa nú tapað sex leikjum í röð. Lokatölur 78-80.

Af hverju vann Valur?

Valsmönnum gekk illa að ráða við Njarðvíkinga framan af leik en frábær fjórði leikhluti hjá gestunum þar sem allt gekk upp gerir út um leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Jordan Roland átti mjög góðan leik en hann stóð uppi sem stigahæsti leikmaður vallarins með 20 stig. Sinisa Bilic stóð sig einnig mjög vel með 19 stig og 8 fráköst.

Í liði Njarðvíkur var Antonio Hester fyrirferðar mikill með tvöfalda tvennu, 17 stig og 12 fráköst.

Hvað gerist næst?

Valur fer næst austur á land þar sem þeir heimsækja Hött á Egilsstöðum á meðan Njarðvík ferðast stutt þegar þeir heimsækja Grindvíkinga undir eldgosinu í Fagradalsfjalli.

Einar Árni Jóhannsson: Pavel er að djöflast á Hester allan tímann

Einar Árni Jóhannssonvísir/bára

„Ég er ótrúlega svekktur. Ég er samt gríðarlega ánægður með liðið mitt í dag, það var góð orka. Í svona leik á móti svona liði þá geta menn gert mistök. Ég er mjög svekktur með niðurstöðuna því mér fannst þetta vera frammistaða sem átti að skila sigri.“

Aðspurður um þessi umræddu mistök segir Einar,

„Við áttum það til að vera of ákafir í vörn og missum til dæmis Bilic oft í einföld sniðskot.“

Einar Árni var ekki par sáttur með dómgæsluna í kvöld.

„Ég er ekki vanur að fara í miðlana með dómgæslu en mér fannst sérstaklega einn dómari leiksins dæma rosalega margar litlar villur á okkur. Jón og Maciek fá rosalega litlar villur þar sem þeir eru að fá sóknarmennina á fullu á sig. Á sama tíma er Pavel að djöflast á Hester allan tíman og Pavel fékk engar villur fyrr en bara í restina. Mér fannst ekki samræmi í þessum aðgerðum og þarna er ég bara að taka einn dómara út. Mér fannst hann ekki halda línunni sem var. Ég er ósáttur,“ sagði Einar Árni en vildi þó ekki taka fram hvaða dómara um ræðir.

„Það er aukaatriði. Hann veit það sjálfur, ég spjallaði við hann eftir leik. Þetta er okkar upplifun, okkur fannst dómgæslan ekki halda sjó í gegnum leikinn. Við skulum samt hafa það á hreinu að það er ekki leikurinn, Valsliðið gerði vel í því að koma til baka. Þeir settu stór skot hérna fyrir utan. Þetta er hrikalega svekkjandi.“

Njarðvík leiddi leikinn lengst af en fjórði leikhlutinn varð þeim að falli í kvöld.

„Ég er svo sem ekki búinn að sjá tölfræðina og er ekki með það á hreinu nákvæmlega hvernig fjórði leikhluti endar en okkur vantaði körfur á kafla. Þeir ná þessu úr því að vera 10 stiga leikur, ná að jafna og komast yfir. Það er augljóst að þarna eru báðir endar leiksins sem hafa þar áhrif, það er ekkert eitthvað eitt sem gerir það að verkum. Við vorum ekki að setja skotin okkar og við hefðum kannski átt að fara meira inn á stóra manninn okkar á þessum tíma sem þeir voru að ná þessu áhlaupi,“ svaraði Einar, aðspurður um hvað gekk illa í síðasta leikhlutanum.

Finnur Freyr Stefánsson: Ég er dauðslifandi feginn

Finnur Freyr Stefánsson

„Ég er dauðslifandi feginn. Við spiluðum megin hluta leiksins illa. Njarðvík náði að spyrna sér fast af botninum og þeir gerðu vel á köflum á meðan við vorum með mislægar hendur. Við vorum að tapa boltanum klaufalega á köflum og nýta illa færin okkar sem við fengum nálægt körfunni. Ég er gríðarlega ánægður með karakterinn þar sem við náðum að snúa leiknum í lok þriðja og byrjun fjórða þegar við náum að komast yfir. Það er náttúrlega fúlt að Miguel fær tvö víti til að klára þetta en það gekk ekki. Það er vont að við séum að gefa þeim séns aftur en eftir stendur sigur sem er okkur mjög dýrmætur,“ sagði Finnur Freyr, þjálfari Vals í viðtali strax eftir leik.

Finnur var spurður að því hvað Valsmenn gerðu öðruvísi í lokaleikhlutanum þar sem þeir unnu upp forskot Njarðvíkur og náðu ákveðnum völdum á leiknum.

„Við vorum aðeins ákveðnari í sóknarleiknum. Það kom öðruvísi hreyfing á liðin og leikurinn fór að opnast meira. Það er jákvætt að sjá Sinisa stíga upp. Hann er frábær leikmaður en er búinn að eiga erfitt uppdráttar undanfarna tvo mánuði og það er flott að sjá hann stíga upp.“

Annar leikhluti tafðist örlítið þar sem Finnur átti í löngum samræðum við Kristinn dómara við mikinn ófögnuð heimamanna í Njarðvík.

„Það var tveggja sekúnda munur á skotklukku og leikklukku. Þegar Njarðvíkingar skjóta héldu einhverjir í okkar liði leiktíminn var búinn og við upplifðum það þannig að leikklukkan hefði verið stöðvuð og að ritaraborðið hefði gert mistök að stoppa tímann. Okkur fannst mögulega að skotið hefði ekki átt að telja. Kristinn dómari sagði að ekkert væri hægt að gera í þessu. Mér fannst dómarateymið tækla þetta mjög vel.“

Næsti leikur Vals er gegn Hetti á Egilsstöðum og Finnur segist kvíða fyrir þeim leik.

„Ég er eiginlega bara stressaður. Höttur er búið að vera á mikilli uppsiglingu eftir áramót og mér skilst að þeir hafi verið í hörkuleik gegn Tindastól í allt kvöld. Þeir eru í svipaðri stöðu og Njarðvík, að hver einasti leikur er mikilvægur fyrir þá eins og okkur. Þeir munu selja sig dýrt á fimmtudaginn og við þurfum bara að vera töluvert betri þá heldur en við vorum hérna í kvöld,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira