Um­fjöllun: Ís­land - Litháen 33-23 | Ís­land komið í um­spil um sæti á HM eftir frá­bæran sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lovísa Thompson var markahæst í íslenska liðinu í dag.
Lovísa Thompson var markahæst í íslenska liðinu í dag. EPA-EFE/GEORGI LICOVSKI

Íslenska kvennalandsliðið vann öruggan tíu marka sigur á Litháen í dag og tryggði sér þar með sæti í umspili um sæti á HM í handbolta. Lokatölur 33-23 Íslandi í vil sem hafði einnig verið tíu mörkum yfir í hálfleik.

Um leikinn

Leikur dagsins fór fram í Skopje í Norður-Makedóníu líkt og síðustu tveir leikir Íslands. Fyrir leik var ljóst að Ísland þurfti aðeins á stigi að halda til að tryggja sér sæti í umspilinu. Liðið var hins vegar án tveggja sterkra leikmanna þar sem þær Steinunn Björnsdóttir og Sunna Jóndóttir höfðu meiðst í fyrstu tveimur leikjum íslenska liðsins. Það kom þó ekki að sök í dag.

Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti, í stöðunni 2-2 skoraði Ísland þrjú mörk í röð og eftir að Litháen minnkaði muninn í 5-3 þá skoruðu þær ekki aftur fyrr en Ísland hafði bætt við sjö mörkum.

Staðan um miðbik fyrri hálfleiks var því 12-4 og segja má að íslenska liðið hafi ekki litið um öxl eftir það. Varnarleikur liðsins var frábær framan af, og í raun allan leikinn. Íslenska liðið byrjaði í sex-núll vörn en var um tíma í fimm-einn vörn, þó aðallega í síðari hálfleik. Þessi fáu skipti sem leikmenn Litháens komust í gegnum vörnina þá var Elín Jóna Þorsteinsdóttir klár í bátana í markinu.

Farið yfir málin.HSÍ

Íslenska liðið lék af miklum hraða og krafti í fyrri hálfleik. Eitthvað sem gestirnir réðu ekki við og staðan því 19-9 er flatað var til loka fyrri hálfleiks. Síðari hálfleikur var svo í raun endurtekning á þeim fyrri.

Íslenska liðið keyrði upp hraðann þegar orkan var enn til staðar og litháenska liðið réð ekkert við það. Um tíma var munurinn kominn upp í 14 mörk en smá þreyta og mögulega kæruleysi – ef kæruleysi má kalla er lið er að vinna með tveggja stafa tölu – þýddi að á endanum vann íslenska liðið með tíu marka mun.

Lokatölur í Skopje í Norður-Makedóníu þbí 33-23 Íslandi í vil. Sigurinn þýðir að Ísland endar í 2. sæti riðilsins er nú komið í umspil um sæti á HM í handbolta.

Ásdís Guðmundsdóttir átti góðan leik í dag.EPA-EFE/GEORGI LICOVSKI

Af hverju vann Ísland?

Ísland var einfaldlega miklu betra lið í dag. Litháenska liðið réð ekkert við hraðann sem íslenska liðið spilaði á og þá réðu þær lítið sem ekki neitt við kraftinn í íslenska liðinu. Íslenska liðið vann leikinn verðskuldað og á öðrum degi hefði hann ef til vill geta orðið enn stærri.

Hverjar stóðu upp úr?

Hjá íslenska liðinu var Lovísa Thompson frábær í sóknarleiknum líkt og nær allir leikmenn íslenska liðsins. Það vakti athygli blaðamanns hversu vel mörkin dreifðust á leikmenn íslenska liðsins og í raun hvernig þú komu oftar en ekki tvö í röð.

Lovísa skoraði til að mynda sex mörk í leiknum og var markahæst í íslenska liðinu. Hún skoraði samt einnig fyrstu tvö mörk liðsins. Sama má segja um marga leikmenn liðsins en flestar virtust skora tvö af mörkum sínum á nánast sömu mínútunni.

Rut Jónsdóttir skoraði fjögur mörk í dag.EPA-EFE/GEORGI LICOVSKI

Þær Tinna Sól Björgvinsdóttir, Sigríður Hauksdóttir, Birna Berg Haraldsdóttir, Ásdís Guðmundsdóttir og Rut Jónsdóttir skoruðu allar fjögur mörk hver.

Þá átti Elín Jóna flottan leik í markinu.

Hjá Litháen vandast málið. Hafandi horft á leikinn á streymi þar sem oft var erfitt að greina númer leikmanna Litháen þá var var tölfræðin hér í skýrslunni ekki alveg upp á tíu. Samkvæmt leikskýrslu EHF var Rita Repeckaite markahæst hjá Litháen með átta mörk úr átta skotum.

Þar á eftir kom Dovile Ilciukaite með fimm mörk.

Hvað gekk illa?

Íslenska liðinu gekk illa að halda sér á vellinum en alls nældi liðið í sjö tveggja mínútna brottvísanir. Það gæti komið sér illa gegn sterkari liðum.

Hjá Litháen var margt sem betur mætti fara en við nennum lítið að fara yfir það hér.

Hvað gerist næst?

Ísland fer í umspil um laust sæti á HM. Verður leikið heima og að heiman. Fyrri leikurinn fer fram 16. eða 17. apríl og síðari leikurinn 20. eða 21. apríl.

Ísland getur mætt Tékklandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Svartfjallalandi, Póllandi, Rúmeníu, Rússlandi, Serbíu, Slóveníu eða Svíþjóð.

Arnar Pétursson, þjálfari íslenska landsliðsins, er mögulega hér að benda á hvaða lið hann vill mæta í umspilinu.EPA-EFE/GEORGI LICOVSKI

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.