Viðskipti innlent

Form­legar við­ræður um kaup á Hótel Sögu hafnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hótel Sögu var skellt í lás 1. nóvember síðastliðinn. 
Hótel Sögu var skellt í lás 1. nóvember síðastliðinn.  Vísir/Vilhelm

Háskóli Íslands hefur hafið formlegar viðræður um kaup á Bændahöllinni við Hagatorg í Vesturbæ Reykjavíkur, sem áður hýsti Hótel Sögu.

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands greindi frá fyrirhuguðum viðræðum við Markaðinn í Fréttablaðinu í morgun. Hann segir í samtali við Vísi í dag að fyrsti fundur viðræðanna hafi verið í gær. „Svo þær eru hafnar,“ segir Jón Atli.

Fjármálaráðuneytið leiðir samningaviðræður í samstarfi við HÍ og menntamálaráðuneytið. Fram kemur í Markaðnum að með viðræðunum eigi að kanna til hlítar „hvort hægt sé að komast að niðurstöðu um kaup á eigninni á ásættanlegu verði fyrir báða aðila.“ Jón Atli segir að ekki sé hægt að gefa neitt frekar upp um umrætt verð að svo stöddu.  

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.Vísir/vilhelm

Þá kveðst Jón Atli vonast til að endanleg niðurstaða um hvort af kaupunum verði fáist mjög fljótlega, vonandi ekki síðar en í byrjun apríl. Þá snúa viðræðurnar að kaupum á allri Bændahöllinni eins og hún leggur sig. 

Ef af kaupunum verður er horft til þess að flytja menntasvið HÍ frá Stakkahlíð og Skipholti í húsnæðið, auk þess sem til skoðunar er að hafa þar skrifstofur, tæknideild, stúdentagarða, gestaíbúðir fyrir fræðifólk og Hámu-útibú.

Félagið Bændahöllin á fasteignana en félagið Hótel Saga sá um rekstur hótelsins. Bændasamtökin eiga bæði félögin. Hótel Sögu var lokað í nóvember vegna kórónuveirufaraldursins. Þegar hafði þó tekið að halla verulega undan rekstrinum árin áður en faraldurinn skall á.

Fréttin hefur verið uppfærð með viðbrögðum frá Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.


Tengdar fréttir

Hugsanlegt að Háskóli Íslands kaupi Hótel Sögu

Til greina kemur að Háskóli Íslands kaupi hótel Hótel Sögu. Þetta staðfestir Jón Atli Benediktsson, rektor skólans, í samtali við Markaðinn viðskiptarit Fréttablaðsins en hótelinu var lokað í nóvember síðastliðnum.

Bændasamtökin loka Hótel Sögu

Samtökin segjast nauðbeygð vegna neikvæðra áhrifa Covid-19 á rekstur ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi og um allan heim.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.