Skoðun

Karl og Dóra og lífs­gæði les­blindra

Guðmundur S. Johnsen skrifar

Mikilvægur þáttur í starfsemi Félags lesblindra er sértæk ráðgjöf um hjálpartæki lesblindra. Í viðamiklu fræðslustarfi félagsins í skólum og vinnustöðum hefur meðal annars verið fjallað um notkun lesblindra á tölvum og snjalltækjum. Tækniframfarir hafa fært lesblindum margt sem gagnast þeim í daglegu lífi. Nýjungar á borð við snjallsíma, hljóðbækur, talgreinar og ekki síst talgervla, hafa aukið aðgengi að skrifuðum texta verulega, auðveldað nám og starf og gert þeim kleift að njóta bókmennta.

Lesblindir sem og blindir og sjónskertir hafa nýtt talgervla snjallsíma þar sem texti er merktur í vafra, tölvupósti eða skjali og þá „les“ talgervilinn textann upphátt á íslensku fyrir notandann. Þessar íslensku talgervilsraddir sem bera heitið „Karl“ og „Dóra“ hafa verið mjög mikilvægar fyrir blinda, sjónskerta og lesblinda.

Blikur á lofti

En nú eru blikur á lofti, íslensku raddirnar „Karl“ og „Dóra“ í talgervlum snjallsíma verða brátt ekki lengur aðgengilegar í Android-símum. Eftir að Amazon verslunarrisinn keypti fyrirtækið sem þróað hafði tæknina var ákveðið að hætta viðhaldi á íslensku röddunum. Í stað þeirra þurfa notendur að reiða sig á enskan talgervil. Það er mikill missir.

Í máltækniáætlun ríkisstjórnarinnar er smíði á nýjum íslenskum talgervli á döfinni. En þrátt fyrir að unnið sé að gerð nýs talgervils verður hann ekki tilbúinn fyrr en eftir eitt til tvö ár. Blindrafélagið sem hafði forgöngu um smíði íslensku talgervilsraddanna, meðal annars með þátttöku lesblindra, vakti máls á þessu nýverið í fjölmiðlum.

Félag lesblindra sér ástæðu til að deila þessum áhyggjum með Blindrafélaginu. Það er jafnframt rík ástæða til að hvetja ríkisstjórnina til að vakta þetta mál vel. Öll seinkun getur haft verulega neikvæð og íþyngjandi áhrif á lífsgæði margra blindra, sjónskertra sem og lesblindra.

Höfundur er formaður Félags lesblindra.




Skoðun

Sjá meira


×