Bílar

Tesla Model 3 - Vinsælasta bíl ársins 2020 reynsluekið

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Tesla Model 3 og regnbogi.
Tesla Model 3 og regnbogi. Vilhelm Gunnarsson

Tesla Model 3 var mest seldi bíll ársins 2020 á Íslandi en 858 eintök voru nýskráð í fyrra. Tela Model 3 er stallbakur sem er til sölu hjá Tesla Vatnagörðum. Til reynsluaksturs var fenginn fjórhjóladrifinn (Dual Motor) bíll með mestu drægninni (Long Range). Einstök akstursupplifun, ekki bara vegna aflsins og aksturseiginleikanna heldur vegna tæknilegrar framþróunar sem Tesla hefur tekist að koma til almennings í gengum Model 3.

Afturendi Tesla Model 3 og regnbogi.Vilhelm Gunnarsson

Útlit

Útlitið er stílhreint og fágað. Tesla er sennilega einn auðþekktasti bíllinn á götum landsins. Þeim hefur vissulega fjölgað hratt síðan Tesla opnaði haustið 2019. Model 3 er þar fremstur meðal systkina sinna, annarra Tesla-bifreiða.

Innfelld handföng.Vilhelm Gunnarsson

Útlit Model 3 er einstakt, framendinn er afar lágur og afturendinn stendur fremur hátt. Bíllinn ber með sér það útlit að vera mjög loftflæðilega skilvirkur, ólátið verður að fullyrða um hvort það er raunin. Hurða handföngin leggjast inn í hurðina eins og frægt er orðið og toppurinn er úr gleri.

Aðstaða ökumanns í Tesla Model 3.Vilhelm Gunnarsson

Aksturseiginleikar

Model 3 er afar kraftmikill í öllum útgáfum, mis kraftmikill en öflugur samt. Aksturinn verður því aldrei leiðinlegur og alltaf er hægt að kæta farþega með snöggri hröðun, án þess aðfara yfir hámarkshraða, að sjálfsögðu.

Engum blöðum er um það að fletta að Model 3 hefur aksturseiginleika sem einkenna sportbíla og þótt hann sé fremur þungur þá er hann kraftmikill. Því ber að mati ofanritaðs að flokka hann sem sportbíl. Hann er hastur og hefur afar mikið veggrip. Bíllinn er á stórum álfelgum sem gerir það að verkum að lítið svigrúm er fyrir dekkin til að gefa eftir og því eru holur og sprungur í malbiki eitthvað sem ökumaður finnur fyrir.

Hann er afar skemmtilegur í akstri og fæstir munu nokkurn tíma þreytast á að þeysast um á Model 3. Víðfrægt er að hugmynd Elon Musk, framkvæmdastjóra Tesla var að undirtegundir framleiðandans myndu mynda orðið sexy, sem myndi útleggjast sem kynþokkafullt. Model E var frátekið og því var ráð að nota 3 sem E. Blaðamaður hefur hins vegar þá kenningu að það sé svo gaman að keyra bílinn, að þurfi ökumaður að fara frá A til B, þá sé viðkomandi líkleg/ur til að fara frá A til B og frá B til A og frá A til B, eða þrjár ferðir fyrir eina.

Tesla Model 3 „frunk“ (Front trunk).Vilhelm Gunnarsson

Notagildi

Bíllinn er einkum vel úthugsaður. Notagildi bílsins er best lýst þannig að í umgengni við bílinn hugsaði ofangreindur alloft „af hverju er ekki einhver löngu búinn að útfæra þetta“. Hlutir eins og að síminn sé notaður sem lykill og hægt er að stilla miðstöðina til að vera búin að afþíða rúður bílsins áður en ætlunin er að aka af stað. Þetta er vissulega til í öðrum bílum en þó ekki eins vel útfært.

Aftursæti í Tesla Model 3.Vilhelm Gunnarsson

Model 3 er ekki stór bíll og þar af leiðandi ekki framúrskarandi rúmgóður, hann er alls ekki þröngur. Bakvísandi bílstólar þrengja strax að ekki svo hávöxnum ökumanni og farþega.

Farangursrýmið er þó gott, svo því sé haldið til haga.

Sama má segja um hönnun innra rýmisins „hvers vegna er enginn framleiðandi búinn að gera þetta“.

Minimalískt innra rými.Vilhelm Gunnarsson

Innra rými

Innréttingin í bílnum er afar smekkleg og stílhrein. Innra rýmið er allt undir miklum minimalískum áhrifum. Hnúðar og takkar eru nánast ekki sjáanlegir og allt eins slétt og fellt og það getur orðið.

Skjárinn sem yfir öllu gnæfir er afar stór, góður og nýtist vel. Hann er notaður í nánast allar aðgerðir og virkar vel, þegar notandi hefur gefið sér tíma til að læra á hann.

Drægni

Drægni Model 3 er frá 448 km í bílnum sem einungis er með drif að aftan. Reynsluakstursbíllinn sem er með mesta drægni þeirra allra er með 580 km drægni. Sem er býsna gott og alls ekki allir bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti standa honum framar. Með ofurhleðslustöðvum á fleiri og fleiri stöðum, þá er auðvelt að sjá fyrir sér að ferðast á Model 3.

Verð

Model 3 kostar frá 5.837.335 kr. Það er allra ódýrasta útgáfan, drif að aftan og í hvítum lit, sem er ódýrasti liturinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×