Umfjöllun og viðtöl: FH - Þór 30-21 | Vandræðalaust fyrir FH-inga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
FH-ingurinn Ágúst Birgisson skorar framhjá Arnari Þór Fylkissyni, markverði Þórs.
FH-ingurinn Ágúst Birgisson skorar framhjá Arnari Þór Fylkissyni, markverði Þórs. vísir/hulda margrét

FH vann stórsigur á Þór, 30-21, þegar liðin áttust við í Kaplakrika í 13. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

FH er áfram í 2. sæti deildarinnar, nú með sautján stig. Þór er hins vegar enn með sín fjögur stig í 11. sætinu, fimm stigum frá öruggu sæti.

Leikurinn í kvöld var lítt spennandi og úrslitin í raun ráðin í hálfleik. Þórsarar byrjuðu leikinn reyndar ágætlega en í stöðunni 6-6 skildu leiðir. FH-ingar skoruðu þá fimm mörk í röð og náðu heljartaki á leiknum sem þeir slepptu ekki.

Gestirnir að norðan gerðu ítrekað ótrúleg mistök í sókninni á meðan heimamenn skoruðu nánast í hverri sókn. Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var duglegur að dreifa álaginu og allir sem komu inn á skiluðu sínu.

FH skoraði fjögur af síðustu fimm mörkum fyrri hálfleiks og var átta mörkum yfir að honum loknum, 18-10.

Þórsarar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti gegn værukærum FH-ingum. Þór skoraði þrjú fyrstu mörkin í seinni hálfleik og minnkaði muninn í fimm mörk, 19-14. Nær komust gestirnir hins vegar ekki.

FH-ingar þéttu vörnina, fundu svör í sókninni og þá dró hratt í sundur með liðunum á ný. FH vann á endanum níu marka sigur, 30-21.

Egill Magnússon skoraði sex mörk fyrir FH og Einar Rafn Eiðsson fimm. Ihor Kopyshynskyi og Karolis Stropus skoruðu fimm mörk hvor fyrir Þór.

FH-ingar komust aftur á sigurbraut eftir tapið fyrir Valsmönnum á mánudaginn.vísir/hulda margrét

Af hverju vann FH?

FH-ingar eru með miklu betra lið en Þórsarar og sýndu það í kvöld. Varnarleikurinn var í góðu lagi allan leikinn og sóknin gekk lengst af vel. Þá voru heimamenn snöggir fram og skoruðu átta mörk úr hraðaupphlaupum.

Ellefu leikmenn FH skoruðu í leiknum á meðan það mæddi mikið á fáum leikmönnum hjá Þór.

Hverjir stóðu upp úr?

Phil Döhler varði virkilega vel allan leikinn og var eini FH-ingurinn sem var með lífsmarki framan af seinni hálfleik. Hann lauk leik með sautján varin skot og flotta 45 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Egill var flottur í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði flott mörk og var duglegur að mata línumenn FH.

Þórður Tandri Ágústsson var besti leikmaður Þórs en hann átti góðan leik á línunni hjá gestunum og skoraði fimm mörk. Stropus og Kopyshynskyi voru drjúgir en þeir tveir, ásamt Þórði, skoruðu sautján af 21 marki Þórs í leiknum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikurinn hefur verið vandamál Þórs í allan vetur og engin breyting varð á því í kvöld. Hann var ekki burðugur og trekk í trekk sáust mistök sem eiga ekki að sjást í efstu deild. Sigurður Kristófer Skjaldarson og Arnór Þorri Þorsteinsson áttu sérstaklega erfitt uppdráttar í Þórssókninni.

FH-ingar voru slakir í upphafi seinni hálfleiks og það tók þá átta og hálfa mínútu að skora sitt fyrsta mark í honum. Sem betur fer fyrir þá varði Döhler vel á þeim kafla og Þórsarar náðu því ekki að minnka muninn að neinu ráði.

Hvað gerist næst?

Þetta var síðasti leikur liðanna fyrir landsleikjahléið. Næstu leikir beggja liða eru 17. mars. Þór fær þá botnlið ÍR í heimsókn á meðan FH sækir Fram heim. Sá leikur gæti þó færst til vegna þátttöku tveggja leikmanna Fram í leikjum með færeyska landsliðinu.

Sigursteinn: Undir Jóhanni Birgi komið hversu stórt hlutverkið verður

Sigursteinn Arndal fer kátur inn í landsleikjahléið.vísir/hulda margrét

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, hafði yfir litlu að kvarta eftir níu marka sigur hans manna á Þór í kvöld.

„Ég er ánægður með sigurinn. Við tókum þetta afgerandi í fyrri hálfleik og mættum vel inn í leikinn,“ sagði Sigursteinn.

„Mörg lið hafa verið í miklu basli með að slíta Þórsliðið frá sér, enda gott lið. Þannig að ég er mjög sáttur.“

FH-ingar voru lengi í gang í seinni hálfleik og skoruðu ekki fyrr en á níundu mínútu hans.

„Ég hafði ekki beint áhyggjur en ég var ekkert rosalega sáttur með hvernig við mættum inn í seinni hálfleikinn. En ég var ánægður með hvernig við kláruðum leikinn. Það var mjög gott,“ sagði Sigursteinn.

Allir leikmenn FH sem voru á skýrslu fengu að spreyta sig í leiknum í kvöld. „Ég er mjög ánægður með að hafa getað notað breiddina. Við erum með gott lið og gott að geta spilað á mörgum.“

Þetta var síðasti leikur FH fyrir landsleikjahlé. Sigursteinn er ánægður með að fá smá tíma til æfinga eftir mikla leikjatörn.

„Það er alltaf gott að geta fengið að æfa. Það hefur ekki gefist mikill tími til þess. Við slökum vel á um helgina og æfum svo vel í næstu viku.“

Jóhann Birgir Ingvarsson lék sinn fyrsta leik fyrir FH á tímabilinu í kvöld. Hann kom inn á undir lok fyrri hálfleiks og skoraði eitt mark.

„Það á algjörlega eftir að koma í ljós og er undir honum komið,“ sagði Sigursteinn aðspurður um hversu stórt hlutverk Jóhanns Birgis yrði.

„Það er rosa gott að fá Jóa. Hann er frábær handboltamaður. Núna þarf hann að koma sér í stand og það er verkefni. Hann á eftir að nýtast okkur vel.“

Halldór: Lengi í gang í vörninni

Þór er í erfiðri stöðu, fimm stigum frá öruggu sæti.vísir/hulda margrét

Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórs, var ekki með skýringar á reiðum höndum af hverju botninn datt úr leik Akureyringa eftir að hafa byrjað báða hálfleikina vel.

„Við byrjum alltaf vel en svo dettum við niður. Ég get kannski ekki gefið neina skýringu á því en þetta er bara eitthvað sem við þurfum að laga,“ sagði Halldór.

Hann var mun sáttari með vörn Þórs í seinni hálfleik en þeim fyrri.

„Við vorum lengi í gang í vörninni. Það voru greinilega skýr skilaboð hjá FH-ingum að keyra á okkur og þeir gerðu það vel. Það drap okkur svolítið í fyrri hálfleik. En í þeim seinni stóðum við vörnina mjög vel og komum með áhlaup en það dugði ekki til,“ sagði Halldór en Þór fékk aðeins á sig tólf mörk í seinni hálfleik eftir að hafa fengið á sig átján í þeim fyrri.

Staðan að honum loknum var 18-10, FH í vil, og staða Þórs því snúin.

„Ég vildi fá baráttu. Skora eitt mark í einu og koma okkur inn í leikinn. Við breyttum aðeins uppstillingunni og það betra flæði á boltann. Við vorum þéttir og flottir,“ sagði Halldór.

Þórsarar fá tækifæri á næstu dögum til að slípa sig saman fyrir lokasprett tímabilsins.

„Drengirnir fá gott frí um helgina eftir mikið álag. Svo byrjum við bara aftur á mánudaginn og fáum góða æfingaviku,“ sagði Halldór. „Við ætlum að koma sterkir til baka í næsta leik sem er gegn ÍR heima.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.