Körfubolti

James brást á ögurstundu og Lakers töpuðu þriðja leiknum í röð

Sindri Sverrisson skrifar
Gestirnir frá Washington reyna að verjast LeBron James sem skoraði 31 stig í nótt en það dugði ekki til.
Gestirnir frá Washington reyna að verjast LeBron James sem skoraði 31 stig í nótt en það dugði ekki til. Getty/Katelyn Mulcahy

Meistarar LA Lakers töpuðu þriðja leiknum í röð í nótt þegar þeir urðu að sætta sig við tap í framlengdum leik gegn Washington Wizards, 127-124, á heimavelli sínum í Los Angeles.

Lakers hafa nú tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum og ljóst að liðið saknar þeirra Anthony Davis og Dennis Schröder. Davis verður frá keppni í þrjár vikur til viðbótar en Schröder ætti bara að missa af einum leik í viðbót.

LeBron James skoraði 31 stig, átti 13 stoðsendingar og tók níu fráköst fyrir Lakers en hann klikkaði hins vegar á ögurstundu, af vítalínunni í lok venjulegs leiktíma.

Bradley Beal var í stuði í framlengingunni og skoraði sex stig í þremur sóknum undir lokin. Hann gerði alls 33 stig fyrir Washington og Russell Westbrook 32 en hann var líkt og Beal einnig með sex stig í framlengingunni.

Utah styrkti stöðu sína á toppnum með þristaregni varamanna

Washington hefur nú unnið fimm leiki í röð, í fyrsta sinn í þrjú ár, og hefur fikrað sig upp af botninum í 13. sæti austurdeildarinnar. Lakers eru jafnir grönnum sínum í LA Clippers í 2.-3. sæti vesturdeildar, með 22 sigra og 10 töp.

Utah Jazz styrktu þar með stöðu sína á toppi vesturdeildar en liðið hefur unnið 25 leiki og tapað aðeins sex. Í nótt voru Charlotte Hornets fórnarlömbin í 132-110 sigri.

Leikmenn Utah skoruðu úr 28 þriggja stiga körfum í leiknum, þar af 19 frá varamönnum liðsins en það er met í deildinni.

Úrslitin í nótt:

  • Houston 100-120 Chicago
  • Dallas 102-92 Memphis
  • Oklahoma 94-108 Miami
  • Phoenix 132-100 Portland
  • Utah 132-110 Charlotte
  • LA Lakers 124-127 Washington
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×