Körfubolti

Berglind og Ólöf Helga eru nýir sérfræðingar Körfuboltakvölds

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Gunnarsdóttir og Ólöf Helga Pálsdóttir hafa báðar spilað yfir tvö hundruð leiki í efstu deild.
Berglind Gunnarsdóttir og Ólöf Helga Pálsdóttir hafa báðar spilað yfir tvö hundruð leiki í efstu deild. Vísir/Samsett

Tveir nýir sérfræðingar verða kynntir til leiks í Domino's Körfuboltakvöldi kvenna í dag en þá mæta tveir fyrrum leikmenn deildarinnar í þátt vikunnar.

Domino's Körfuboltakvöld kvenna mun í dag fara yfir umferðina sem var spiluð í deildinni í gær og teymið hefur fengið liðsauka í þeim Berglindi Gunnarsdóttur og Ólöfu Helgu Pálsdóttur.

Berglind og Ólöf Helga hafa báðar látið til sín taka í kvennakörfunni á undanförnum árum, bæði í titlasöfnun hér heima en einnig með íslenska landsliðinu.

Berglind Gunnarsdóttir varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari, þrisvar sinnum deildarmeistari og einu sinni bikarmeistari með Snæfelli. Hún hefur leikið 217 leiki í efstu deild. Berglind var valin í úrvalslið ársins vorið 2017 og á að baki 26 leiki fyrir íslenska kvennalandsliðið.

Ólöf Helga Pálsdóttir varð einu sinni Íslandsmeistari með Njarðvík og bikarmeistari með bæði Grindavík og Njarðvík. Hún var fyrirliði Njarðvíkurliðsins sem vann tvöfalt tímabilið 2011-12 og hefur leikið 219 leiki í efstu deild. Ólöf Helga spilað á sínum tíma sjö A-landsleiki og þjálfaði líka Hauka í deildinni frá 2018 til 2020.

Ólöf Helga hefur komið einu sinni áður inn í Domino's Körfuboltakvöld sem sérfræðingur en þetta er í fyrsta sinn sem Berglind reynir fyrir sér í þessu hlutverki.

Stelpurnar munu fara yfir umferðina í gær með Kjartani Atla Kjartanssyni. Þátturinn er á Stöð 2 Sport og hefst klukkan 17.00.


Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×