Skoðun

Stríðið gegn konum

Gunnar Smári Egilsson skrifar

Eftir að skotið var á bíl fjölskyldu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra var því haldið fram í fréttum, spjallþáttum og á samskiptamiðlum að rekja mætti orsök árásanna til aukinnar hörku gagnvart stjórnmálafólki í samfélagsumræðunni. Fólk sté fram og tók á sig sök á ástandinu, sagðist ekki hafa staðið sig nógu vel í umræðunni; það hefði getað varið betur það stjórnmálafólk sem ráðist var gegn og hafnað skýrar þeim sem stóðu fyrir árásunum.

Án þess að ég vilji fullyrða um tengslin á milli skotanna á bíl Dags og hörku og hrakyrða í umræðu um stjórnmál; þá vil ég taka undir þessa afstöðu. Við berum ekki aðeins ábyrgð á okkar eigin orðum í almennri umræðu heldur berum við sameiginlega ábyrgð á umræðunni. Hún er menningarleg afurð okkar allra. Við höfum þar ekki öll jöfn áhrif, en flest einhver, líka þau sem ekki taka þátt. Þau móta umræðuna með fjarveru sinni og þögn, gefa hinum eftir sviðið, samþykkja það sem þar fer fram með þögninni. Og við höfum ekki bara áhrif með því sem við leggjum til sjálf heldur líka með viðbrögðum okkar gagnvart framlagi annarra. Við erum öll leikendur, höfundar, áhorfendur, gagnrýnendur. Samfélagsumræðan er sameiginlegt sköpunarverk okkar allra.

Gengdarlaus hroki miðjufólksins

En auðvitað stöndum við ekki öll jafnt innan umræðunnar. Staða okkar er ólík. Sum, eins og til dæmis stjórnmálafólkið, eru innanbúðarfólk, hefur mýmörg tækifæri til að koma skoðunum sínum og afstöðu til skila. Að stóru leyti hringsnýst fréttaumhverfið um stjórnmálafólkið, fréttafólk eltir álit þess og varpar áfram sýn á veröldina út frá sjónarhóli innanbúðarfólks umræðunnar. Stór hluti almennings er jaðarmenni í umræðunni; bæði fólk sem vill koma að skoðunum og afstöðu sem meginstraumnum er framandi, en líka fólk sem tilheyrir ekki miðjunni vegna stéttar, menntunar, aldurs, uppruna, húðlitar, menningarbakgruns, fötlunar, kynvitundar, kyns. Miðjan er þröngur staður og þar blása ekki alltaf ferskir vindir. Markmið miðjunnar er oftast í grunninn að halda öðrum frá, viðhalda óbreyttu ástandi, þagga niður, sussa, láta sem veröldin utan miðjunnar sé ekki til, að þar sé vanþroska heimur sem ljós visku miðjunnar hefur ekki enn náð að lýsa upp. Við þekkjum þetta of vel. Hroki þeirra sem komið hafa sér fyrir innan miðjunnar er nánast botnlaus.

En spennan á milli miðju og jaðars er náttúrlega það sem gerir umræðuna kraftmikla og frjóa. Án hennar væri eilíft logn og leiðindi. En eins og þessi spenna er gefandi þá er henni oft lýst sem vandamáli, jafnvel sjúkdómseinkenni. Þegar einhver hrópar af jaðrinum inn að miðjunni er kvartað yfir að sá hafi hátt, ekki yfir að miðjan hunsi þann svo hann verði að hrópa. Það er út af þessu sem ekki er hægt að taka undir þá kröfu miðjufólksins að öll umræða verði lágstemmd og með þeim hætti að miðjufólkið geti sætt sig við hana.

Sussið er krafa um óbreytt ástand

Er ég þá kominn í andstöðu við sjálfan mig? Þar sem ég sagði áðan að greiningin á umræðunni væri rétt, að við bærum öll ábyrgð á henni og að hún væri sameiginlegt sköpunarverk okkar? Nei, því í þessu fellst ekki samþykki um að lausnin sé sú að miðjufólkið sussi á jaðarinn, að fólkið sem hefur besta aðgengið að umræðunni og sem mest tillit er tekið til, leggi þeim lífsreglurnar sem upplifa umræðuna sjálfa, og hvernig hún hringsnýst um miðjuna, sem ógn við sig og eina birtingarmynd kúgunar eins hóps á öðrum. 

Ef við ætlum að laga umræðuna þurfum við fyrst og fremst að tryggja öllum jafnt aðgengi að henni og að umræðan leiði til þess að sjónarmið allra nái fram og hafi áhrif á samfélagið. Áður en því marki er náð mun umræðan endurspegla ójöfnuð samfélagsins og í reynd viðhalda honum. Þess vegna er suss miðjufólksins í raun krafa um óbreytt ástand, að þau sem upplifa sig kúguð, afskipt og þögguð sætti sig við stöðuna, séu þæg og trufli ekki miðjufólkið.

Okei, þetta vildi ég segja um umræðuna í tilefni af því sem haldið var fram í kjölfar frétta af skotum á bílhurð Dags B. Eggertssonar. En ástæða þess að ég skrifa þetta er að ég vil í raun ræða annað mál, óskylt en eilítið tengt.

Hörmulegt morð

Ömurlegasta frétt þessa árs og margra undanfarinna ára er morðið á Freyju Egilsdóttur Mogensen í Malling á Jótlandi. Það er svo hryllilegt að ég hef engin orð til að lýsa þeim hryllingi, ofbeldið svo taumlaust að það er ekki hægt að hugsa til þess án þess að finna til líkamlegrar vanlíðunar. Ég man ekki eftir neinu í líkingu við þetta í sögu okkar.

Og það er ekki bara verknaðurinn sjálfur sem er ömurlegur heldur sú staðreynd að Freyja var myrt á heimili sínu af sambýlismanni sínum. Við getum öll skilið áfall Dags B. Eggertssonar og fjölskyldu hans þegar þau áttuðu sig á að skotið hafði verið á fjölskyldubílinn. Við skiljum að þessi árás braut helgan vegg friðhelgi heimilisins, helgi sem við erum háð. En góður guð, hvað er þá sú árás sem Freyja varð fyrir? Hún rauf ekki aðeins friðhelgina heldur braut allan trúnað, tryggð, mannhelgi, allt sem er helgt í lífinu og lífið sjálft.

Hvers vegna eigum við svo auðvelt með að segja skotin á bílhurð Dags vera afleiðingu samfélagsástands, en erfitt með að gera það í tilfelli Freyju? Er það vegna þess að árásin á Freyju er einstök, einsdæmi, en skotin á bílhurð Dags hluti af bylgju slíkra verka?

Skotið á bíl dags einsdæmi en morðið ekki

Það getur ekki verið, því reyndin er þveröfug. Skotin á bílhurð Dags er einsdæmi en morðið á Freyju eitt af fjölmörgum þar sem sambýlismenn drepa konur. Freyja er til dæmis þriðja íslenska konan á innan við tólf mánuðum sem lætur lífið fyrir hendi karla sem þær búa með. Og við vitum að þessi morð eru aðeins toppurinn á ísjakanum. Á bak við þau eru hundruð, þúsundir kvenna sem eru bláar, marðar, brotnar, skornar, slegnar. Ef ég má halda samlíkingunni áfram, þá má draga í efa að við séum að upplifa vaxandi illindi gagnvart stjórnmálafólki, en enginn getur neitað að við lifum tíma þar sem í gangi er virkt stríð gegn konum. Það nægir að benda á hinar særðu og föllnu. Fyrir utan bráðamóttökur eru hér athvörf fyrir fórnarlömb átakanna bæði í Reykjavík og á Akureyri og mættu vera opin víðar. Þar sem er stríðsviðbúnaður, þar er stríð.

Ef sá maður er sekur sem lögreglan handtók fyrir að skjóta á bílhurð Dags, þá vill svo til að saga hans segir okkur meira um stríðið gegn konum en illsku gagnvart stjórnmálafólki. Sem kunnugt er var sá handtekni dæmdur fyrir gróf kynferðisbrot gegn barnungum konum, sat af sér stuttan fangelsisdóm og var síðar endurreistur sem saklaus væri byggt á meðmælum nokkurra karla. Götin á bílhurðinni blikna í samanburði við þann skaða sem þessi maður hafði áður valdið konum.

Ofbeldi grasserar innan menningar okkar

Og þá er komið að því að spyrja: Ef við eigum að taka ábyrgð á umræðunni um stjórnmálafólk og mögulegar afleiðingar hennar; ættum við þá ekki miklu fremur að taka öll ábyrgð á umræðunni um konur? Horfast í augu við að sú menning, sem þetta ofbeldi fer fram innan, er okkar menning, kúltúr sem við höfum tekið þátt í að skapa með orðum og athöfnum, en líka með afskiptaleysi, fálæti, skorti á samkennd og ábyrgð og getuleysi til að verja hin veiku fyrir árásum og ofbeldi hinna sterku? Þetta umhverfi er sköpunarverk okkar allra og við berum því ábyrgð á því öll. Ekki öll bera jafna ábyrgð en ábyrgðin er sameiginleg, eins og á samfélaginu öllu.

Ef við trúum á samfélag, þá er ofbeldi gegn konum ekki einkamál þeirra sem verða fyrir því og ekki heldur þeirra sem beita því. Ofbeldismaðurinn ber auðvitað ábyrgð á sínum gjörðum og það dregur ekkert úr ábyrgð hans þótt við hin viðurkennum ábyrgð okkar á menningunni sem þetta ofbeldi grasserar innan. Og það á ekki aðeins við um líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi, heldur smánun, þöggun, útilokun; bæði í opinberri umræðu sem og í persónulegum samskiptum.

Ég veit að þið öll sem lesið þetta eruð mér sammála. Ofbeldi gegn konum gerist ekki í tómarúmi, það er afleiðing af inngrónu meini í menningu okkar. En einhver kann að segja að þetta sé að skána, að allt horfi til betri vegar. Má vera. En ég spyr þá á móti: Hvers vegna að gera ekki það sem svo margir lögðu til þegar umræðan reis hæst um stjórnmálafólkið um daginn; að við segðum hingað og ekki lengra? Er ekki löngu komið nóg? Vill einhver leggja til að við förum hægt í sakirnar, að við sættum okkur við að nokkrar fleiri Freyjur falli í valinn, kannski nokkrir tugir, hundruð, þúsund? Er ekki löngu kominn tími til að segja nóg?

Innleiðum núll umburðarlyndi gagnvart þessu ofbeldi

Ofbeldi gegn konum er ekki eina meinið í samfélagi okkar, ekki eina merkið um grimmdina sem er látin óáreitt innan samfélagsins. Við búum í samfélagi hins sterka og í menningu þeirra sem fljóta ofan á. Stríðið gegn konum er arfur okkur frá þúsund ára sögu kúgunar þeirra. Og þótt konur hafi unnið margra sigra í frelsisbaráttu sinni þá eru þær langt í frá lausar undan kúguninni. Mest hefur áunnist næst miðjunni þar sem þau eru sem hafa það efnahagslega best, hafa mest völd og mesta félagslega inneign. En innan miðjunnar eru konur enn jaðarsettar og þurfa að sæta þöggun, kúgun, ofbeldi. Og því lengra sem við förum frá miðjunni, út á jaðar hinna fátæku og valdalausu, þá er erfiðara að benda á árangurinn af frelsisbaráttu kvenna.

Viðbrögð okkar við stríðinu gegn konum ættu því að verða jafn hörð og lagt var til varðandi stjórnmálafólkið um daginn, en þó eðlisólík: Við eigum ekki að sussa á jaðarinn eða hin undirsettu heldur taka undir með þeim, hætta að umbera ofbeldið í hvaða birtingarmynd sem er og innleiða núll umburðarlyndi gagnvart ofbeldi gegn konum; draga línu í sandinn, eins og svo mörg sögðu í kjölfar skotanna á bílhurð borgarstjórans, og hafna kúgun kvenna sama í hvaða mynd hún birtist.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×