Körfubolti

NBA dagsins: Boston bauð til sóknarveislu gegn Cleveland

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jaylen Brown héldu engin bönd gegn Cleveland Cavaliers.
Jaylen Brown héldu engin bönd gegn Cleveland Cavaliers. getty/Maddie Meyer

Eftir þrjú töp í röð vann Boston Celtics stórsigur á Cleveland Cavaliers, 141-103, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var sóknarleikur Boston-manna virkilega góður. Þeir hittu úr 55,9 prósent skota sinna í leiknum og helmingur þriggja stiga skota þeirra rötuðu rétta leið.

Sex leikmenn Boston skoruðu ellefu stig eða meira í leiknum í nótt. Jaylen Brown var stigahæstur heimamanna með 33 stig þrátt fyrir að spila aðeins í nítján mínútur. 

Frá því skotklukkan var tekin upp timabilið 1954-55 hefur enginn leikmaður í NBA skorað jöfn mörg stig á jafn fáum mínútum og Brown í nótt.

Brown hefur verið í stuði að undanförnu og skorað 25 stig eða meira í síðustu fjórum leikjum Boston. Hann er sjötti stigahæsti leikmaður NBA með 27,3 stig að meðaltali í leik.

Aðalskorari Cleveland, Colin Sexton, fann sig ekki í leiknum í nótt, tók bara átta skot og skoraði aðeins þrettán stig. Andre Drummond, frákastahæsti leikmaður NBA, hafði einnig hægt um sig með ellefu stig og fimm fráköst.

Fyrrverandi leikmaður Boston, Gordon Hayward, var hetja Charlotte Hornets þegar liðið sigraði Orlando Magic, 104-107.

Hayward skoraði sigurkörfu Charlotte þegar 0,7 sekúndur voru eftir af leiknum. Hann skoraði alls 39 stig og tók níu fráköst.

Los Angeles Clippers er óstöðvandi þessa dagana og vann sinn sjöunda leik í röð þegar liðið bar sigurorð af Oklahoma City Thunder, 108-100. Clippers er á toppi Vesturdeildarinnar.

Allt það helsta úr ofannefndum leikjum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan sem og tíu flottustu tilþrif næturinnar.

Klippa: NBA dagsins 25. janúar

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×