Viðskipti innlent

Róa líf­róður eftir að stjórnandi „gerði skan­dal sem við vissum ekki um“

Eiður Þór Árnason skrifar
Höfuðstöðvar Kampa ehf á Ísafirði.
Höfuðstöðvar Kampa ehf á Ísafirði. Já.is

Jón Guðbjartsson, stjórnarformaður rækjuverksmiðjunnar Kampa á Ísafirði, segir að bókhald fyrirtækisins hafi „byggst á skáldskap í allt of langan tíma.“ Nú sé unnið að því að reyna að bjarga félaginu.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu en samkvæmt heimildum blaðsins er fjárhagsstaða félagsins mun verri en upphaflega var talið og hlaupa þær fjárhæðir sem vantar á hundruðum milljóna króna. Þá hafi miklum skuldum verið safnað.

Vísir greindi frá því fyrir helgi að stjórnendur rækjuvinnslunnar hafi óskað eftir greiðslustöðvun til að komast til botns í fjárhagsvanda fyrirtækisins. Féllst Héraðsdómur Vestfjarða á að veita þriggja vikna langa greiðslustöðvun á fimmtudag vegna aðsteðjandi fjárhagsvanda.

Jón sagði þá í samtali við Vísir að stjórn fyrirtækisins hafi fengið áfall þegar slæm fjárhagsstaða fyrirtækisins blasti við. Unnið hafi verið að leyfinu til greiðslustöðvunar frá því að stjórnin gerði sér grein fyrir alvarlegum fjárhagsvanda í kringum jólin.

Ónefndum stjórnanda að kenna

Jón segir í samtali við Morgunblaðið að staðan hafi reynst vera allt önnur en fram hafði komið í bókhaldi og ársreikningum félagsins um nokkurra ára skeið. Þar sé um að kenna „ákveðnum stjórnanda hjá Kampa.“

„Annar verklegra stjórnenda fyrirtækisins gerði skandal sem við vissum ekki um. Ég ætla ekki nánar út í það. Nú er farin af stað vinna við það að bjarga fyrirtækinu.“

Samkvæmt heimildum Vísis var fjármálastjóra Kampa sagt upp störfum í desember.

42 starfsmenn, að megninu frá Ísafirði en einnig Bolungarvík, starfa hjá Kampa sem var stofnað árið 2007. Því er ljóst að staðan veldur margri fjölskyldunni á Ísafirði og Bolungarvík áhyggjum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×