Handbolti

Svíar og Frakkar ó­sigraðir inn í átta liða úr­slit | Heima­menn á­fram eftir jafn­tefli gegn Slóveníu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fátt fær Frakka stöðvað.
Fátt fær Frakka stöðvað. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Frakkar fara með fullt hús stiga inn í 8-liða úrslit HM í handbolta eftir stórsigur á Portúgal í kvöld. Svíar jörðuðu Rússa og fara áfram án þess að tapa leik og þá komust heimamenn í Egyptalandi áfram í 8-liða eftir jafntefli gegn Slóveníu.

Frakkland mætir fullt sjálfstraust inn í 8-liða úrslit HM í Egyptalandi en liðið fer upp úr milliriðli þrjú með fullt hús stiga. Liðið vann þægilegan níu marka sigur á Portúgal í kvöld, lokatölur 32-23.

Hugo Descat var markahæstur allra á vellinum með átta mörk fyrir Frakkland. Miguel Martins skoraði sex mörk fyrir Portúga.

Í milliriðli fjögur vann Svíþjóð fjórtán marka sigur á Rússlandi í kvöld, 34-20 lokatölur þar á bæ. Svíar vinna þar með riðilinn með þrjá sigra og tvö jafntefli í fimm leikjum.

Lucas Pelles var markahæstur í liði Svía með átta mörk og þar á eftir kom Hampus Wanne með sex mörk.

Heimamenn í Egyptalandi náðu svo nokkuð óvænt öðru sætinu í milliriðli fjögur eftir 25-25 jafntefli gegn Slóveníu fyrr í dag. Slóvenía var fjórum mörkum yfir í hálfleik, staðan þá 12-8, en Egyptar dóu ekki ráðalausir og komu tvíefldir inn í síðari hálfleikinn.

Þeir voru tveimur mörkum yfir þegar tvær mínútur voru eftir en Slóvenía skoraði síðustu tvö mörkin og tryggðu sér jafntefli. Slóvenar hefðu hins vegar þurft sigur til að komast áfram í 8-liða úrslit og því er það Egyptaland sem fylgir Svíþjóð áfram í 8-liða úrslit úr milliriðli fjögur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.