Handbolti

„Þetta er grátlegt“

Sindri Sverrisson skrifar
Ýmir Örn Gíslason verst gegn Kentin Mahe en Ýmir hefur átt stórkostlegt heimsmeistaramót í hjarta íslensku varnarinnar.
Ýmir Örn Gíslason verst gegn Kentin Mahe en Ýmir hefur átt stórkostlegt heimsmeistaramót í hjarta íslensku varnarinnar. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Ýmir Örn Gíslason og félagar í íslensku vörninni stóðu sig vel gegn Frökkum í kvöld og Ýmir segir einfaldlega grátlegt að frammistaða íslenska liðsins hafi ekki skilað sigri.

Frakkland vann 28-26 eftir að Ísland hafði verið tveimur mörkum yfir um miðjan seinni hálfleikinn.

„Við bara förum inn í hvern einasta leik til að vinna hann og það hefur því miður ekki gengið upp í síðustu tveimur leikjum. Það vantar rosalega lítið upp á, þetta er grátlegt, svo svekkelsið í mönnum er mikið en við gírum okkur upp og klárum þetta mót á sigri,“ sagði Ýmir við Vísi strax eftir leik.

Hann sagði frammistöðu íslenska liðsins þá bestu á HM til þessa:

„Heilt yfir myndi ég segja að þetta hafi verið okkar besti leikur, þegar horft er til varnar- og sóknarleiks, markvörslu og hraðaupphlaupa. Það er grátlegt að fá ekki tvö stig þegar það leggja allir svona mikið í leikinn. Ekki bara byrjunarliðið heldur allir. Það voru allir tilbúnir frá fyrstu mínútu og gáfu allt í þetta. Þess vegna er sérstaklega erfitt að kyngja þessu,“ sagði Ýmir.

Á síðustu tuttugu mínútum leiksins komu langir kaflar þar sem Ísland náði ekki að skora og það gerði að lokum útslagið:

„Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvað við skoruðum mikið á lokakaflanum en jú, það voru alveg færi sem hefði mátt nýta betur. Að sama skapi kom Viktor frábærlega inn og varði þvílíka bolta. Við áttum alveg að geta nýtt það til að ná í sigur. En svona eru bara íþróttirnar,“ sagði Ýmir.


Tengdar fréttir

„Of mikil virðing fyrir þessu franska liði“

„Dómgæslan í dag var skrýtin. Það var of mikil virðing fyrir þessu franska liði,“ sagði svekktur Sigvaldi Björn Guðjónsson eftir tapið gegn Frökkum á HM í handbolta í Egyptalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×