Körfubolti

Haukur Helgi frá næstu sex vikurnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Haukur Helgi meiddist illa gegn sínum gömlu félögum.
Haukur Helgi meiddist illa gegn sínum gömlu félögum. @morabancandorra

Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfubolta og leikmaður Andorra í spænsku úrvalsdeildinni, verður frá næstu sex vikurnar eða svo. Þetta kom fram á Twitter-síðu félagsins í dag.

Meiddist Haukur Helgi í leik gegn UNICS Kazan í Evrópubikarnum en það er liðið sem Haukur lék með á síðustu leiktíð.

Haukur Helgi hefur lent í nokkrum óhöppum síðan hann gekk í raðir Andorra. Ásamt því að greinast með Covid-19 þá hefur hann einnig lent á meiðslalistanum og missti úr fimm vikur vegna meiðsla í september. Þess utan hefur hann verið einkar öflugur og staðið sig með prýði.

Haukur Helgi ræddi við íþróttvef Morgunblaðsins um meiðslin sem munu halda honum frá keppni næstu sex vikurnar eða svo fyrr í dag.

„Ég sneri mig illa í leik gegn gömlu liðsfélögunum. Var að fara upp í þrist á annarri mínútu og fóturinn minn leiðist áfram og fótur varnarmannsins sömuleiðis svo ég lendi á honum. Ég sleit eitt liðband og reif tvö í viðbót svo ég verð frá í svona sex vikur samkvæmt læknunum,“ sagði Haukur Helgi í viðtalinu.

„Ef ég hefði meiðst í desember hefði ég misst af tuttugu leikjum en nú er að komast meiri regla á þetta svo ég mun líklegast missa af fimmtán leikjum,“ bætti hann við.

„Ég byrjaði tímabilið ágætlega en reif síðan í nára. Kem til baka í nokkra leiki en fæ svo Covid-19. Kem til baka og þá eru fjórtán leikir á rúmlega þrjátíu dögum. Maður gerði varla annað en að fljúga og spila án þess að ná sér almennilega á milli.“

„Erum búnir að vera í basli með meiðsli í hópnum. Þetta átti að fyrsti leikurinn síðan á undirbúningstímabilinu sem við erum allir saman. Erum búnir að vera missa menn út hér og þar en höfum ekki náð að klára jafna leiki. Þetta er búið að vera brekka en við erum enn jákvæðir,“ sagði Haukur Helgi að lokum en gengi Andorra hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarið. Liðið hefur tapað tíu af síðustu ellefu leikjum sínum.

Liðið er sem stendur í 11. sæti af átján liðum í spænsku úrvalsdeildinni. Þá er það komið í 16-liða úrslit Evrópubikarsins í körfubolta.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.