Viðskipti erlent

Ný kynslóð síma Samsung lítur dagsins ljós

Samúel Karl Ólason skrifar
AP8247941513928867
AP/Samsung

Starfsmenn tæknirisans Samsung kynntu nýja síma og önnur tól á fjarkynningu í dag. Símarnir vöktu þó mesta athygli og það að töluverð breyting hefur verið gerð á myndavélum í símum Samsung.

Símarnir eru í þremur útgáfum. Samsung Galaxy S21, S21+ og S21 Ultra. Skjáir þeirra eru 6,1 tomma, 6,7 og 6,8.

Eins og svo oft áður segja forsvarsmenn Samsung að myndavélar símanna og þá sérstaklega hugbúnaðurinn sem stýrir þeim hafi aldrei verið betri.

Athygli hefur vakið hjá tækniblaðamönnum erlendis að Samsung er að lækka verðið á símunum, samanborið við síðustu línu, en það þykir til marks um það að sífellt lengri tími er á milli þess að fólk kaupi sér nýja síma og faraldur nýju kórónuveirunnar hefur aukið þar á.

Ytra er verðið á milli kynslóða að lækka um 200 dali. Það virðist þó ekki skila sér hingað til lands. Miðað við fljóta yfirferð á netinu er verð S21 og S21+ í grófum dráttum á svipuðu róli og upprunalegt verð S20 línunnar.

S21 Ultra hefur lækkað í verði á milli kynslóða.

Verðlækkun kostar

Samsung Galaxy S21 5G kostar 159.990 krónur í forsölu hér á Íslandi. Galaxy S21+ kostar 194.990 krónur og Galaxy S21 Ultra kostar 229.990 krónur.

Verðlækkun S21 og S21+ felur í sér að upplausn símanna er 1080p+, sem er lækkun frá síðustu kynslóð þegar upplausnin var 1440p+. Þá eru skjáir símanna 48 til 120 rið og fer það eftir notkun.

Þá hefur minni símanna verið lækkað úr tólf gígabætum í átta. Harðir diskar símanna eru 128GB og er búið að fjarlægja möguleikanna á að bæta við þá með minniskorti.

S21+ er töluvert stærri en S21 en að öðru leyti er lítill munur á þeim.

S21 Ultra er með betri skjáupplausn og betri myndavélar, í það minnsta á pappír, og fleiri. Hann er með fjórar myndavélar á bakhliðinni en ekki þrjár eins og hinir símarnir. Þá er Ultra með 12GB vinnsluminni.

Hér má sjá samantekt Samsung frá kynningunni. Fyrirtækið birti þó fjölmörg myndbönd af nýju vörunum í dag sem einnig má sjá hér að neðan. Þar er farið yfir hvernig þau líta út og upp á hvað tækin bjóða.

Galaxy S21

Galaxy S21 Plus

Galaxy S21 Ultra

Galaxy Buds Pro





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×