Skoðun

Er ég kem heim í Búðardal

Eyjólfur Ingvi Bjarnason skrifar

Ætli flestir íbúar þessa lands kannist ekki við þennan þekkta dægurlagatexta eftir Þorstein Eggertsson. En veistu hvar Búðardalur er? Búðardalur stendur við Hvammsfjörð, einn af innfjörðum Breiðafjarðar (stígvélið á Íslandskortinu).

Á einu augabragði fyrir nokkrum mánuðum breyttist heimsmyndin. Allt í einu varð ekkert mál að halda fjarfundi þar sem fjöldi fólks hittist, hvert við sitt skrifborð, í stað þess að koma saman í sama rými. En það leiðir líka af sér að fjöldi starfa krefjast þess ekki að vera unnin á ákveðnum stað. Þetta eru störf sem má vinna hvar sem er og hvenær sem er – til dæmis í Búðardal.

Búðardalur er eini þéttbýlisstaðurinn í Dalabyggð, landbúnaðarhéraði sem geymir mikla sögu og er miðsvæðis mitt á milli Vestfjarða og höfuðborgarsvæðisins og mitt á milli Snæfellsness og Norðurlands vestra. Dalirnir eru náttúruparadís með útsýni út á Hvammsfjörð og hinar „óteljandi“ Breiðafjarðareyjar og þar eru fjölbreyttir útivistarmögluleikar. Svæðið er jafnframt óplægður akur tækifæra í ýmis konar ferðaþjónustu.

Á síðasta ári var byggt nýtt fimm íbúða raðhús í Búðardal og á þessu ári ætlar leigufélagið Bríet að standa fyrir byggingu tveggja íbúða í Búðardal. Sveitarfélagið vinnur að því að koma ónýttu húsnæði í stjórnsýsluhúsinu í betri nýtingu – t.d. sem frumkvöðlasetur og vinnuaðstöðu fyrir fólk sem stundar fjarvinnu og vill komast dag og dag á fastan punkt. Þar sem ólíkt fólk sem vinnur ólík störf deilir sömu kaffistofu verða oft fjölbreyttar umræður.

Ég nefndi söguna hér framar en fjölmargar af Íslendingasögunum rekja sig á einhvern hátt í Dalina. Fyrir tæpu ári síðan var Vínlandssetur opnað í Búðardal. Fyrsti búnaðarskóli landsins var í Ólafsdal og þar er Minjavernd með mikla uppbyggingu um þessar mundir.

Vissir þú að fyrsta prentsmiðja landsins var í Dalabyggð – nánar tiltekið í Hrappsey? Það er rými fyrir fjölbreytta atvinnu nú sem þá. Í Búðardal eru lausar iðnaðarlóðir fyrir meðalstór fyrirtæki ef eigendur fyrirtækja eru að leita að nýjum stað til að byggja starfsemi sína upp til komandi framtíðar.

Þegar okkur hefur tekist að kveða kórónuveiruna í kútinn, fer fólk að hugsa sér til hreyfings á nýjan leik. Eflaust sjá margir tækifæri í því að flytja út á land þar sem stutt er í fjölbreytta náttúru- og útivistarmöguleika. Ef þú ert í þannig hugleiðingum þá skora ég á þig að kynna þér Búðardal og Dalabyggð sem búsetukost – hver veit nema það muni verða veislunni margt í.

Höfundur er oddviti sveitarstjórnar Dalabyggðar og er sauðfjárbóndi í Ásgarði (táin á stígvélinu)



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×