Handbolti

Alfreð vill að málið gleymist en Wolff hélt áfram að skjóta á þríeykið

Sindri Sverrisson skrifar
Andreas Wolff átti skínandi leik gegn Austurríki í gær.
Andreas Wolff átti skínandi leik gegn Austurríki í gær. Getty/Marius Becker

Umræðan um þýska landsliðið í handbolta hefur snúist um eitthvað annað en þjálfarinn Alfreð Gíslason hefði kosið, nú þegar heimsmeistaramótið fer að hefjast í Egyptalandi. Markvörðurinn Andreas Wolff ber ábyrgð á því.

Þrír reynsluboltar þýska landsliðsins og leikmenn nýkrýndra Evrópumeistara Kiel ákváðu að gefa ekki kost á sér á HM, af fjölskylduástæðum. Kórónuveirufaraldurinn ræður þar eflaust mestu. Wolff, sem nú er leikmaður Kielce í Póllandi, gagnrýndi þessa fyrrverandi liðsfélaga sína í hlaðvarpsþætti á dögunum og sagði undarlegt að fjölskyldumenn úr öðrum landsliðum gætu spilað á HM en ekki þessir þrír.

„Ég skil alveg að leikmenn geti haft áhyggjur af heilsunni á þessum tímum. En þeir geta ferðast um og spilað í Meistaradeild Evrópu en ekki á HM þar sem sóttvarnareglurnar eru enn strangari. Það er ég mjög gagnrýninn á. Og ég sé heldur ekki að leikmenn annarra þjóða ætli að vera heima,“ sagði Wolff í þættinum sem fór í loftið í síðustu viku.

Alfreð var spurður út í ummælin og var ekki hrifinn: „Ég vona að þetta mál verði gleymt og grafið. Þetta truflar undirbúninginn okkar,“ sagði Alfreð sem þá átti þó eftir að sjá sína menn vinna Austurríki 34-20 í síðasta leiknum fyrir HM, í leik í undankeppni EM í gær. Wolff átti þar skínandi leik að mati Alfreðs.

„Fjölskyldumenn frá öðrum löndum verða með“

Alfreð varð ekki að ósk sinni því í dag birtist viðtal við Wolff í Kicker þar sem fjarvera þríeykisins var enn til umræðu. „Þegar maður sér aðrar þjóðir mæta með fullskipað lið og að hjá þeim eru engir sem ekki gefa kost á sér, þá gæti maður í kaldhæðni sagt að aðrir leikmenn séu betri í að skipuleggja fjarveru sína,“ sagði Wolff.

„Ég er ekki fjölskyldumaður sjálfur og get ekki sett mig í þau spor, en fjölskyldumenn frá öðrum löndum verða með á mótinu,“ sagði Wolff.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×