Í þættinum fær Kjartan Atli Kjartansson til sín þá Eini og Birki Guðlaugssyni, tvíbura sem léku með Kjartani í Stjörnunni. Tvíburarnir eru þó langt frá því að vera sammála um NBA-deildina en Birkir er mikill stuðningsmaður Los Angeles Lakers á meðan Einir heldur með Chicago Bulls.
Kjartan Atli, sem er harður stuðningsmaður Boston Celtics, telur Lakers liðið vera langt um betur mannað en önnur lið deildarinnar. „Það kæmi mér rosalega á óvart ef þetta lið myndi ekki vinna í ár,“ bætir Einir við.
Þremenningarnir hrósa stjórn Los Angeles Lakers fyrir að hafa sótt sterka leikmenn á undirbúningstímabilinu. „Þeim tekst að fá ótrúlegustu leikmenn fyrir nánast engan pening,“ segir Birkir og bætir við: „Í nútíma íþróttum eru ekki margir leikmenn sem vilja koma og spila frítt, eða svo gott sem.“
Lakers-liðið bætti við sig Montrezl Harrell, sem hefur undanfarin ár verið einn besti leikmaður deildarinnar sem kemur inn af varamannabekknum. Harrell lék áður hjá nágrönnunum í Los Angeles Clippers en færði sig yfir til Lakers fyrir þetta tímabil.
Þremenningarnir eru á því að Harrell passi fullkomlega inn í leikmannahóp Lakers, þá sérstaklega með Anthony Davis sem vill spila stöðu kraftframherja.
Rætt er um öll lið NBA-deildarinnar í þættinum og má hlusta á umræðurnar í spilaranum hér fyrir ofan.

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.