Viðskipti innlent

„Núna get ég allavega verslað í Krónunni án samviskubits“

Eiður Þór Árnason skrifar
Særún var samskiptastjóri Haga sem meðal annars reka verslanirnar Hagkaup og Bónus.
Særún var samskiptastjóri Haga sem meðal annars reka verslanirnar Hagkaup og Bónus. Vísir

Særúnu Ósk Pálmadóttur hefur verið sagt upp störfum sem samskiptastjóri Haga en staða hennar hjá verslunarfyrirtækinu hefur verið lögð niður. Særún er um leið fyrsti og síðasti samskiptastjóri Haga en fyrir hennar tíð hafði enginn gegnt þeirri stöðu hjá smásölurisanum.

Hagar tilkynntu í gær að Sesselía Birgisdóttir hafi verið ráðin í nýja stöðu forstöðumanns nýsköpunar og markaðsmála hjá fyrirtækinu. Mun hún taka við verkefnum samskiptastjóra.

Særún segir í samtali við Vísi að henni hafi verið tilkynnt um uppsögnina á mánudag og að hún hafi þegar hætt störfum hjá fyrirtækinu. Einu skýringarnar sem hún hafi fengið á uppsögninni væru að um væri að ræða skipulagsbreytingu sem Finnur Oddsson, forstjóri Haga, stóð að. Sá Finnur tók við stjórnartaumunum af Finni Árnasyni síðasta sumar.

Særún segir að tími hennar hjá Högum hafi verið mjög góður skóli þar sem hún fékk að takast á við skemmtileg og krefjandi verkefni með reynslumiklum samstarfsfélögum. 

„Það er mikið búið að ganga á þessum fjórtán mánuðum frá því að ég byrjaði, bæði forstjórabreyting og heimsfaraldur þannig að þetta eru búnir að vera skrítnir tímar.“

Hvort tveggja hafi vissulega haft áhrif á hennar áætlanir fyrir félagið og dótturfélög þess. 

Særún segir að uppsögnin hafi komið henni á óvart en að hún líti björt fram á veginn.

„Þetta er bara er tækifæri, 2021 er árið mitt,“ segir Særún. 

Þá nefnir Særún að hún geti loks verslað í Krónunni án samviskubits. Krónan er helsti samkeppnisaðili Bónus, flaggskips Haga í lágvöruverslunum hér á landi.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.