Viðskipti innlent

Fyrsti samskiptastjóri Haga sérfræðingur í krísum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Særún Ósk Pálmadóttir, nýr samskiptastjóri Haga.
Særún Ósk Pálmadóttir, nýr samskiptastjóri Haga. Lárus Karl Ingason
Særún Ósk Pálmadóttir hefur verið ráðin samskiptastjóri Haga hf. Særún er sögð hafa viðamikla reynslu á þessu sviði, en í námi sínu sérhæfði Særún sig í svokölluðum „krísusamskiptum.“

Í tilkynningu frá Högum þar sem greint er frá ráðningu hennar er tekið fram að um nýja stöðu innan félagsins sé að ræða. Hún sé tilkomin eftir skipulagsbreytingar innan Haga sem tilkynnt var um í ágúst, en markmiðið samskiptastjórans sé að „gera boðleiðir skýrari og markvissari innan Haga og dótturfyrirtækja.“

Særúnu hefur verið falið það verkefni, ekki síst vegna reynslu hennar á sviði samskiptaráðgjafar eins og rakið er í tilkynningu Haga. Þar segir að hún hafi síðast starfað hjá ráðgjafastofunni Aton.JL, áður Aton, þar sem hún starfaði sem samskiptaráðgjafi síðastliðin þrjú ár.

„Á árunum 2018 og 2019 var hún einnig kynningarstjóri tónlistarhátíðarinnar Myrkir músíkdagar. Særún hefur starfað sem sérfræðingur í samskiptum hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Tempo og verkefnastjóri hjá Opna háskólanum í HR,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Þar er jafnframt vikið að menntun Særúnar, sem sögð er vera með M.Sc. gráðu í almannatengslum með áherslu á krísusamskipti frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð og Háskólanum í Stirling í Skotlandi, sem og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×