Handbolti

Norska „neyðarliðið“ mátti sín lítils

Sindri Sverrisson skrifar
Christian Berge stýrði Noregi ekki í Hvíta-Rússlandi í dag. Hann er með sitt aðallið í undirbúningi fyrir HM.
Christian Berge stýrði Noregi ekki í Hvíta-Rússlandi í dag. Hann er með sitt aðallið í undirbúningi fyrir HM. Getty/Martin Rose

Til þess að trufla ekki undirbúning sinn fyrir HM í Egyptalandi tefla Norðmenn fram varaliði í leikjum sínum við Hvíta-Rússland í undankeppni EM í handbolta.

Varaliðið, sem norskir fjölmiðlar hafa kallað „neyðarliðið“, tapaði 33-25 í Hvíta-Rússlandi í dag eftir að hafa verið 17-10 undir í hálfleik. Liðin mætast aftur í Noregi á föstudaginn. 

Undankeppni EM er rétt að hefjast en fyrir fram má búast við því að bæði liðin komist á endanum upp úr riðlinum og á EM, en að Ítalía og Lettland sitji eftir.

Christian Berge landsliðsþjálfari Noregs vildi ekki láta leikina við Hvíta-Rússland trufla undirbúninginn fyrir HM. Vegna kórónuveirufaraldursins og sóttkvíarreglna í Noregi hefði getað reynst afar snúið eða hreinlega ómögulegt að spila leiki í Hvíta-Rússlandi og Noregi, og fara svo til Egyptalands á HM í næstu viku. Að minnsta kosti ef að upp hefði komið smit í leikmannahópnum. Því var ákveðið um miðjan desember að tefla ekki fram aðalliðinu í leikjunum við Hvít-Rússa.

Aðallið Noregs undirbýr sig hins vegar fyrir HM með æfingum í Flensburg í Þýskalandi. Liðið ferðast svo með rútu til Danmerkur og leikur tvo vináttulandsleiki við Dani fyrir mótið. Fyrsti leikur Noregs á HM er við Frakkland 14. janúar. 

Líklegt er að Noregur og Ísland mætist í milliriðli á HM, en til þess þurfa bæði lið að enda meðal þriggja efstu í sínum fjögurra liða riðli. Ísland teflir fram sínu aðalliði í undankeppni EM, í tveimur leikjum við Portúgal á morgun og næsta sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×