Heimsmarkmiðin

Hæsta framlagið fjórða árið í röð frá UN Women á Íslandi

Heimsljós

Landsnefnd UN Women á Íslandi sendi á síðasta ári rúmlega 127 milljónir króna til alþjóðlegra verkefna UN Women sem er hæsta fjárframlag allra landsnefnda til verkefna UN Women á árinu óháð höfðatölu. Þetta er fjórða árið í röð sem landsnefndin nær þessum frábæra árangri.

Í nýrri ársskýrslu landnefndarinnar kemur fram að aldrei hafi á einu ári jafnmargir styrktaraðilar gengið til liðs við samtökin, en tæplega 3.000 nýir ljósberar bættust í hópinn á síðasta ári. Ljósberar voru orðnir rúmlega 9.200 í lok árs. „Ljósberar eru fólk á öllum aldri og búa í öllum landshlutum. Mjög bættist í hóp styrktaraðila utan höfuðborgarsvæðisins á árinu, en 34% nýrra ljósbera eru búsettir utan þess, og hefur hlutfallið aldrei verið svo hátt. Tveir þriðju nýskráðra voru konur,“ segir í skýrslunni.

Á síðasta ári, þrítugasta starfsári UN Women á Íslandi, var ákveðið að beina kastljósinu að baráttunni gegn þvinguðum barnahjónaböndum og málefnið var í forgrunni í fyrsta fræðslu- og söfnunarþætti landsnefndarinnar í sjónvarpi. Þátturinn „Stúlka – ekki brúður“ var sýndur í beinni útsendingu á RÚV 1. nóvember þar sem sjónum var beint að Malaví og þeim verkefnum UN Women sem miða að því að uppræta þvinguð barnahjónabönd í því landi, en tíðni þvingaðra barnahjónabanda í Malaví er með því hærra sem gerist í heiminum. Um 20% íslensku þjóðarinnar horfði á þáttinn og fræddist um leið um verkefni UN Women. Þá lagði fjöldi fólks málefninu lið með því að hringja inn og gerast mánaðarlegir styrktaraðilar UN Women á Íslandi.

„Sterk staða Íslands á sviði jafnréttismála veitir okkur hljómgrunn á alþjóðavettvangi og við tökum ábyrgðarhlutverki okkar alvarlega. Jafnrétti kynjanna er hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu og hefur verið leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands um árabil. Þessi áhersla var staðfest á dögunum þegar niðurstöður árlegrar könnunar Efnahags- og framfarastofnunarinnar á þróunarsamvinnu sýndi að yfir 80% af þróunarsamvinnu Íslands er á marktækan hátt ætlað að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna,“ segir meðal annars í ávarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Á aðalfundi UN Women í síðustu viku urðu þær breytingar á stjórn samtakanna að Kristján Hjálmarsson, Ólafur Elínarson og Ólafur Þ. Stephensen voru kosnir í stjórn til tveggja ára. Aðrir í stjórn eru Arna Grímsdóttir, formaður, Fanney Karlsdóttir, varaformaður, Kristín Ögmundsdóttir, gjaldkeri, Bergur Ebbi Benediktsson, Soffía Sigurgeirsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.