Erlent

Rússland ekki lengur frjálst

Freedom House, virt bandarísk stofnun sem fylgist með þróun pólitískra réttinda og almenningsfrelsis, tilkynnti í gær að Rússland hefði verið fellt úr flokki "frjálsra" ríkja í heiminum í ársskýrslu stofnunarinnar. Jennifer Windsor, forstjóri Freedom House, segir að Rússland fylli nú flokk ófrjálsra ríkja: "Rússland stígur skref aftur á bak og færist niður í flokk ófrjálsra ríkja. Pútín forseti hefur í sívaxandi mæli þjappað valdi á sínar eigin hendur, ofsótt og hótað fjölmiðlum og fært lögregluna undir pólitíska stjórn." Windsor segir að hættuleg þróun í átt til alræðisvalds sé nú í Rússlandi: "Það er enn meiri ástæða til að hafa áhyggjur af þessu en ella vegna afskipta Pútíns forseta af stjórnmálum nágrannaríkjanna á borð við Úkraínu." Freedom House telur að almennt séð hafi stjórnmálafrelsi aukist í heiminum á árinu 2004. Framfarir urðu í tuttugu og sex löndum en afturför í ellefu. 46 prósent hinna 192 ríkja heims töldust frjáls, tuttugu og sex prósent ófrjáls en afgangurinn aðeins að hluta til frjáls. Harðstjórn er talin mest í átta ríkjum. Þau eru: Mjanmar, Kúba, Líbía, Norður-Kórea, Sádi-Arabía, Súdan, Sýrland og Túrkmenistan. Freedom House bendir sérstaklega á að lýðræði hafi vaxið ásmegin í Georgíu og Úkraínu þar sem mótmæli almennings hindruðu kosningasvindl. Stofnunin sér nokkur merki þess að frelsi sé að aukast í Mið-Austurlöndum, sérstaklega Norður-Afríku og almennt séð í íslömskum ríkjum. "Þótt framfarir hafi ekki orðið nægar í neinu arabaríki til þess að þau færist upp um flokk hafa hóflegar framfarir í frelsisátt orðið í Egyptalandi, Jórdaníu, Marokkó og Katar," segir í skýrslu Freedom House. Stofnunin segir að fall Rússlands niður úr flokki frjálsra í ófrjálsra ríkja í fyrsta skipti frá hruni Sovétríkjanna 1991 sé "afdrifaríkasta þróun ársins í stjórnmálum".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×