Bíó og sjónvarp

Kvikmyndahúsin opnuð aftur: Hvað er á dagskrá?

Heiðar Sumarliðason skrifar
Nokkrar þeirra mynda sem frumsýndar verða á næstunni.
Nokkrar þeirra mynda sem frumsýndar verða á næstunni.

Eftir að hafa skellt í lás 24. mars síðastliðinn, opna kvikmyndahúsin aftur fyrir sýningar í dag. Til að byrja með verða einungis sýndar kvikmyndir sem voru í bíó þegar lokunin átti sér stað (fyrir utan The Hangover, sem Sambíóin taka aftur til sýningar). Áhorfendur sem þyrstir í nýtt efni þurfa þó ekki að örvænta, því von er á nýjum kvikmyndum innan nokkurra vikna. Margar þeirra eru myndir sem áttu að koma í kvikmyndahús um allan heim núna í vor, en á mörgum stöðum var gripið til þess ráðs að gefa þær út á VOD-leigum í staðinn. Við búum hinsvegar svo vel að geta opnað bíóin og fáum því að sjá þær á hvíta tjaldinu. Hér er listi yfir helstu kvikmyndir sem teknar verða til sýningar á næstu misserum.

I Still Believe. 22. maí

Kvikmyndin I Still Believe byggir á lífi tónlistarmannsins Jeremys Camps og eiginkonu hans, Melissu Lynn Henning-Camp, sem greindist með krabbamein í eggjastokkum skömmu fyrir brúðkaup þeirra.

Höfundar og leikstjórar eru Erwin-bræðurnir, Andrew og Jon, sem hafa verið stórtækir í gerð bíómynda með kristilegum boðskapi undanfarin ár. Kvikmynd þeirra frá 2018, I Can Only Imagine, varð þeirra vinsælasta og halaði inn rúmlega 83 milljónir dollara í miðsölu í Bandaríkjunum.  

Líkt og sjá má hér að neðan er töluverður munur á viðbrögðum gagnrýnenda og áhorfenda við myndinni.

Áhorfendur hafa verið töluvert sáttari við I Still Believe, heldur en gagnrýnendur.

Just Mercy. 22. maí

Kvikmyndin Just Mercy fjallar um mannréttindalögfræðing sem tekur að sér mál fanga sem ranglega var dæmdur til dauða. Leikstjóri og handritshöfundur er Destin Daniel Cretton, sem gerði m.a. kvikmyndirnar Short Term 12 og The Glass House. Michael B. Jordan leikur lögfræðinginn og Jamie Foxx fer með hlutverk fangans.

Myndin kom út í Bandaríkjunum í upphafi árs og hlaut prýðilega aðsókn, sem og góða dóma áhorfenda og gagnrýnenda.

Gagnrýnendur og áhorfendur mæla flestir með Just Mercy.

Capone. 29. maí

Kvikmyndin Capone fjallar um glæpaforingjann Al Capone og gerist í kjölfar þess að hann losnaði úr fangelsi, eftir að hafa setið af sér átta ár af ellefu ára dómi. Á þessum tímapunkti var andleg heilsa hans orðin hrörleg og var hann látinn laus vegna þess. 

Leikstjóri og höfundur handrits er Josh Trank, en hann er þekktastur fyrir að hafa reynt að eyðileggja eigin starfsferil með því að opinberlega gagnrýna kvikmyndaútgáfu sína af Fantastic Four, sömu helgi og hún kom út. Í kjölfarið fór hann í sjálfskipaða útlegð, en Capone er fyrsta kvikmynd hans í fimm ár. Það er Tom Hardy sem fer með hlutverk glæpaforingjans.

Myndin er ekki komin út neinsstaðar, því hafa engir dómar birst enn sem komið er.

Tíst Josh Trank um Fantastic Four, sem hann tók þó fljótlega niður.

Valley Girl. 3. júní.

Kvikmyndin Valley Girl fjallar um fyrirmyndar unglingsstúlku sem býr í San Fernando-dalnum í Los Angeles. Hún fellur fyrir rokkara frá Hollywood-svæðinu (sem er fátækari og skítugri bæjarhluti) og verða þau par. Það fellur hennar nánustu ekki í geð, hvorki fjölskyldu né vinum. 

Þessi endurgerð, á samnefndri kvikmynd frá árinu 1983, hefur ekki átt sjö dagana sæla. Upprunalega átti að gefa hana út sumarið 2018, en hegðun eins af aðalleikurum myndarinnar, Youtube-stjörnunnar Logan Paul, varð til að þess að Orion Pictures seinkuðu útgáfu hennar um tæp tvö ár. Hún átti því að koma í kvikmyndahús í Bandaríkjunum 8. maí n.k., en vegna Covid-19 kemur hún aðeins út á VOD-veitum vestanhafs. Þar sem aðstæður eru allt aðrar hér á landi mun hún koma í íslensk kvikmyndahús 3. júní. 

Eftir grúsk á Tímarit.is virðist frumgerðin frá árinu 1983 alls ekki hafa komið í kvikmyndahús á hér á landi og mig rekur ekki minni til að hún hafi birst á myndbandaleigum heldur. 

Man einhver eftir þessari hulsturskápu á íslenskum myndbandaleigum?

King of Staten Island. 10. júní.

Þessi misserin er Pete Davidson sennilega skærasta stjarna Saturday Night Live-þáttanna. Kvikmyndin King of Staten Island byggir að hluta til á ævi hans, en er að miklu leyti skálduð. Það er Judd Apatow sem leikstýrir.

Myndin átti að koma í kvikmyndahús í Bandaríkjunum, en vegna Covid-19, var líkt og með Valley Girl, ákveðið að gefa hana einungis út á VOD-veitum. Við fáum hinsvegar að sjá hana í kvikmyndahúsum hér á landi. 

Ekkert sýnishorn úr myndinni er að finna á netinu, en Universal hefur þess í stað sent frá sér samtal milli Davidson og Apatow, um að hún eigi að koma út á VOD-veitum.

Davidson holdi klæddur.

The Hunt. 17. júní

Kvikmyndin The Hunt fjallar um ríka Bandaríkjamenn sem ræna og veiða landa sína frá Suðurríkjunum, sér til gamans. Líkt og fyrrnefnd Valley Girl, var The Hunt seinkað vegna óró í kringum útgáfuna. Í þessu tilfelli var það hinsvegar innihaldið sem þótti óviðeigandi, sérstaklega í kjölfar skotárásanna í Dayton og El Paso. Myndin kom svo út helgina áður en Covid-19 hertók Bandaríkin. 

Mörg þekkt andlit eru í aðalhlutverkum, m.a. Hilary Swank, Emma Roberts, Amy Madigan, Betty Gilpin og Ike Barinholtz. Höfundar handrits eru þeir Nick Cuse og Damon Lindelof, en þeir eru m.a. höfundar og framleiðendur sjónvarpsþáttanna The Watchmen. Lindelof er einnig höfundur handrita kvikmynda á borð við Star Trek Into Darkness, World War Z og Prometheus. 

The Hunt mun ekki skorta ofbeldi.

A Hidden Life. Frumsýningardagur óstaðfestur

A Hidden Life er nýjasta kvikmynd leikstjórans Terence Malicks. Hún er byggð á ævi Austurríkismannsins Franz Jägerstätter, sem neitaði að berjast fyrir hönd nasista í heimsstyrjöldinni síðari og varð að taka afleiðingum þess.

Útgáfan ætti að vera aðdáendum Malicks kærkomin, því miðað við dóma gagnrýnenda og lengd myndarinnar, virðist hann hér halda sig við sama formið. En Malick er þekktastur fyrir að gera langar, listrænar og íhugular kvikmyndir. 

Meðal fyrri verka hans eru The Thin Red Line, The Tree of Life og Badlands.

Eftir að hafa neitað að ganga í herinn er Franz Jägerstätter tekinn höndum.

Trolls World Tour 24. júní.

Trolls World Tour er framhald Trolls, frá árinu 2016. Poppy og Branch snúa bæði aftur, en í þetta skiptið er það drottning þungarokkströllanna sem reynir að ná yfirráðum yfir öllu konungsríkinu. Drottningunni (og popparanum) Poppy líst ekkert á það og ætlar með aðstoð vina sinna að koma í veg fyrir valdaránið.

Það kann að koma á óvart að Trolls World Tour, er þriðja myndin í þessari upptalningu væntanlegra mynda sem hefur valdið deilum og úlfúð. Það er vegna þess að framleiðendur hennar hjá Universal ákváðu að gefa hana út á VOD-veitum og sleppa algjörlega að setja hana í kvikmyndahús, vegna Covid-19. Sú útgáfuleið gekk svo vel að kvikmyndaverið gaf út tilkynningu þess efnis að þetta sé eitthvað sem þeim hugnist og hyggist þeir gefa út fleiri kvikmyndir á VOD, samhliða útgáfu í kvikmyndahús. Þetta fór það illa í forráðamenn AMC, einnar stærstu kvikmyndahúsakeðju Bandaríkjanna, að þeir gáfu út yfirlýsingu þess efnis að myndir frá Universal verði hér eftir ekki sýndar í kvikmyndahúsum þeirra.

Eins og hér sést geta rokkarar verið ógnvekjandi.

Aðrar væntanlegar kvikmyndir

My Spy kemur í kvikmyndahús 17. júní.

Af öðrum kvikmyndum sem stendur til að frumsýna á næstu misserum eru Manou the Swift, My Spy, Military Wives, Lucky Day og The Postcard Killings. Einnig stendur til að sýna fleiri eldri myndir, en tilkynnt verður um þær síðar. Athugið að dagsetningar geta breyst.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.