Innlent

Meirihluti fjárlaganefndar segir nauðsynlegt að samþykkja Icesave

Sigríður Mogensen skrifar

Meirihluti fjárlaganefndar segir nauðsynlegt að samþykkja Icesave frumvarpið. Minnihlutinn segir samningana stórhættulega, gjá hafi myndast milli þings og þjóðar og að með samningunum verði skuldabyrði þjóðarbúsins líklega óviðráðanleg.

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis segir í lokaáliti sínu í Icesave málinu að nauðsynlegt sé að ljúka því með samþykki frumvarpsins.

Ráða megi af álitsgerðum breskra lögmannsstofa að verði frumvarpinu hafnað geti það leitt til ráðstafana af hálfu Breta og Hollendinga sem óvíst er hvernig ljúki. Meirihlutinn túlkar það svo að þjóðirnar gætu beitt sér þannig að lokað yrði á Ísland á alþjóðavettvangi og EES samningnum jafnvel stefnt í hættu.

Sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd segja í sínu áliti að Icesave samningarnir, eins og þeir standi núna, vegi að sjálfstæði þjóðarinnar. Þetta séu stórhættulegir gjörningar sem alls ekki megi samþykkja.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar í fjárlaganefnd, telur að með samþykki Icesave samninganna verði skuldabyrði þjóðarbúsins líklega komin yfir mörk þess að vera viðráðanleg.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknar, segir í sínu áliti að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar í málinu. Leggur hann til að leitað verði eftir pólitískum farvegi til lausnar deilumálinu eða samningsniðurstöðu á sanngjarnari forsendum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×