Viðskipti innlent

Unnið að áætlun um eignaskipti hjá erlendum fjárfestum

Ríkisstjórnin vinnur nú að áætlun um að erlendum fjárfestum á Íslandi, einkum eigendum krónubréfa verði gefinn kostur eignaskiptum á bréfum sínum. Þetta kemur fram í Finnacial Times.

Samkvæmt FT ætlar ríkisstjórnin að fara fram á það við þá íslensku aðila sem eiga eignir erlendis, eins og t.d. lífeyrissjóðina, að þeir skipti á eigum sínum við hina erlendu fjárfesta.

Einnig er rætt um að bjóða hinum erlendu fjárfestum upp á að skipta út krónubréfum sínum, sem talin eru nema um 400 milljörðum kr., fyrir ríkisskuldabréf til lengri tíma og þar með koma í veg fyrir að þetta fé renni út úr landinu strax og gjaldeyrishöftunum verður aflétt.

FT ræðir um málið við Steingrím Sigfússon fjármálaráðherra. Steingrímur segir að eignaskipti leysi ekki allan vandann þar sem ekki séu til nægilegar erlendar eignir Íslendinga til að mæta allri fjárhæðinni sem bundin er í krónubréfum og fleiri fjárfestingum.

"Hinsvegar gætu hinir erlendu fjárfestar haft áhuga á háu vaxtastigi hérlendis um lengri tíma og vildu því halda sig í landinu," segir Steingrímur.

Fram kemur í máli Steingríms að þetta sé eitt af helstu forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. "Við gerum okkur grein fyrir að ef við semjum ekki um málið mun það koma í veg fyrir að hægt sé að lækka vexti og afnema gjaldeyrishöftin," segir hann.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×