Viðskipti innlent

Gámaþjónustan í útrás í Lettlandi

Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar.
Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar.

Gámaþjónustan hefur náð töluverðri fótfestu á markaði í Lettlandi. Fyrirtækið hefur nú á einu ári keypt nokkur fyrirtæki á sviði sorphreinsunar og endurvinnslu og um mánaðarmótin síðustu bættist enn eitt í safnið, SIA Eko Kurzeme. Sveinn Hanneson, framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar, segir í samtali við Vísi að í Lettlandi felist tækifæri þar sem landið þarf að uppfylla harðari kröfur í þessum efnum nú þegar Lettar hafa gengið í Evrópusambandið.

„Við sjáum þarna ákveðin tækifæri sem liggja í því að þeir eru aðilar að ESB og þurfa að uppfylla kröfur í samræmi við það," segir Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar. „Lettar eru hins vegar eru langt á eftir okkur í flokkun á sorpi og það má kannski segja að þeir séu á svipuðu róli og við Íslendingar vorum á fyrir 15 til 20 árum. Við sjáum því tækifæri þarna til að nýta okkur þá þekkingu og tækni sem við höfum verið að byggja upp hér á landi í þessum bransa."

Sveinn segir að fyrirtækið hafi þann háttinn á að fjárfesta í samvinnu við heimamenn. „Við höfum keypt í nokkrum félögum með heimamönnum en getum svo keypt þá út þegar fram líða stundir." Sveinn segir að vel gangi en að útboðsmarkaðurinn í Lettlandi sé ekki mjög þróaður enn sem komið er og líkir honum einnig við ástandið eins og það var hér á landi fyrir nokkrum árum. „Menn þurfa að hafa sambönd og því er mikilvægt að hafa heimamenn í liði með sér. En ESB aðildin gerir það einnig að verkum að svona viðskiptahættir eru á undanhaldi."

Aðspurður hvort fyrirtæki Gámaþjónustunnar sé með stóra markaðshlutdeild í Lettlandi sagðist hann ekki vera með tölur þar að lútandi á reiðum höndum en segir að þeir telji sig eiga fullt erindi inn á markað. Hann bætir því við að fyrirtækið beiti sömu aðferð og hefur gagnast þeim vel á heimamarkaði. „Við höfum verið að beita sama módeli og við notuðum hér á landi. Við kaupum smærri fyrirtæki og sameinum þau," segir Sveinn og bætir því við að þannig sé hægt að ná fram ákveðnu hagræði í innkaupum og rekstri. „Markaðurinn er mikið til mettaður hér á Íslandi og við getum ekki stækkað nema fara út fyrir landsteinana," segir Sveinn Hannesson að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×