Erlent

Hvers vegna dýrin lifðu af flóðin

Vísindamenn telja sig nú hafa komist að því hvers vegna öll villt dýr á Srí Lanka lifðu af flóðbylgjurnar í Suðaustur-Asíu. Í þjóðgarðinum Yala á Srí Lanka hlupu öll villt dýr frá ströndinni og upp til hæða áður en flóðbylgjurnar riðu yfir eyjuna. Fuglafræðingar garðsins tóku eftir að hegðun fuglanna og hljóðin sem þeir gefa frá sér breyttust mjög skyndilega, þónokkuð áður en hamfarirnar dundu yfir. Tvö hundruð fílar eru í garðinum. Þeir byrjuðu skyndilega að hlaupa allt hvað af tók inn til landsins áður en flóðbylgjurnar skullu á ströndinni og þjóðgarðsverðir segja að þeir hafi allir lifað af. Hvernig má þetta vera?, spyr fólk sig og velta menn því fyrir sér hvort dýrin hafi hreinlega sjötta skilningarvitið að þessu leiti. Vísindamenn segja að það hafi líklegast verið mjög næm heyrn og háþróuð þekking á umhverfinu sem hafi bjargað dýrunum. Dr. Padmalal, dýrafræðingur þjóðgarðsins, segir að dýrin hafi notað samskiptakerfi á tíðnisviði sem er mun lægra en svo að mannseyrað greini og nái þetta tíðnisvið yfir mjög langar vegalengdir. Menn verði ekki varir við þetta samskiptakerfi dýranna. Klifurhæfileikar björguðu einnig þónokkrum dýrum. Á einum stað við ströndina stóðu sextán Japanar og mynduðu flóðbylgjuna í stað þess að leggja á flótta. Þeir létust allir. Aparnir á svæðinu lifðu hins vegar allir af með því að klifra upp í næsta tré.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×