Körfubolti

Charles Barkley sagði sögur af Michael Jordan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan og Charles Barkley mættust í lokaúrslitunum árið 1993.
Michael Jordan og Charles Barkley mættust í lokaúrslitunum árið 1993. Getty/Icon Sportswire

Charles Barkley og hinn heimsfrægi þjálfari John Calipari töluðu saman á ESPN í gær og fóru þar yfir sögur af hinum magnaða Michael Jordan sem flestir telja vera besta körfuboltamann sögunnar.

Það skiptir ekki máli hvort þú hafir verið stjarna í NBA eða lítt þekktur bakvörður hjá Púertó Ríkó þegar kom að Michael Jordan. Það borgaði sig að spara yfirlýsingarnar.

Keppnisskap Michael Jordan er engu líkt og þeir Barkley og Calipari komu með nokkur dæmi um það.

Fyrsta sagan var líklega sú fyndnasta af þeim öllum en hún sagði jafnframt svo mikið um hvernig Michael Jordan hugsaði og hegðaði sér.

Skemmtilegasta saga Barkley snérist um Jordan daginn sem bandaríska landsliðið mætti Púertó Ríkó í undankeppni Ameríku fyrir Ólympíuleikana í Barcelona 1992.

Michael Jordan, Charles Barkley, David Robinson og þjálfarinn Chuck Daly fóru þá í golf um morguninn en Bandaríkin átti síðan að spila undanúrslitaleikinn um kvöldið. Eftir átján holur ætluðu þeir Daly, Barkley og Robinson að fara heim en Jordan var ekki búinn að fá nóg og vildi spila aðrar átján holur.

Þegar Michael Jordan mætti svo í leikinn eftir 36 holur þá heimtaði hann að dekka leikstjórnanda Púertó Ríkó liðsins.

Jordan gat vissulega dekkað leikstjórnendastöðuna vel en það kostaði oft mun meiri orku enda að gæta manns sem er mikið með boltann. Þess vegna þótti Chuck Daly það skrýtið að Jordan vildi ólmur fá það verkefni nýbúinn að klára 36 holur.

Svarið við því kom hins vegar fljótt því umræddum leikstjórnandi Púertó Ríkó hafði verið með yfirlýsingar fyrir leikinn.

Eins og Charles Barkley komst síðan að orði þá náði þessi litli bakvörður varla að rekja boltann í leiknum svo áköf var vörnin hjá Jordan sem leyfði honum ekki að komast neitt.

Bandaríska liðið hafði tapað fyrir Púertó Ríkó árið á undan en þá án NBA leikmannanna. Að þessu sinni unnu Bandaríkjamenn 119-81.

Charles Barkley og John Calipari fóru yfir fleiri sögur af Jordan og má sjá spjallið þeirra hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×