Innlent

Hafna samræmdri launastefnu

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, segir að laun félagsmanna hafi ekki hækkað frá hruni. Hann hafnar miðstýringu Samtaka atvinnulífsins.
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, segir að laun félagsmanna hafi ekki hækkað frá hruni. Hann hafnar miðstýringu Samtaka atvinnulífsins.
„Samræmd launastefna er eitthvað sem við ætlum ekki að taka þátt í,“ segir Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna.

Því ætli félagið ekki að vera í samfloti við önnur félög innan ASÍ um gerð kjarasamnings.

Guðmundur segir að félagsmenn VM vilji ræða við fulltrúa fyrirtækja í málm- og tæknigreinum án miðstýringar Samtaka atvinnulífsins.

Félagar innan VM telja að þeir hafi orðið fyrir kjararýrnun síðustu misseri.

Frá hruni sé ekki merkjanleg hækkun á launum í vél- og málmiðnaðargreinum. Þetta hafi gerst þrátt fyrir að skortur hafi verið á starfsfólki í þessum greinum. Vél- og málmtæknigreinar séu með mikilvægustu þjónustugreinum við undirstöðuútflutningsgreinar þjóðarinnar, sem allar hafi styrkst frá hruni og ættu því að vera færar um að greiða hærri laun.

Guðmundur segir að lítil nýliðun hafi orðið í stéttinni undanfarin ár. Það séu fáir sem leggja stund á nám í þessum greinum. Hann segir að ein ástæða þess sé að kjörin séu ekki nógu góð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×