Erlent

Samkynhneigðir fagna því að mega ganga í hjónaband

Dálítil hátíðarstemning ríkti í gær fyrir utan þinghúsið í Lissabon þar sem samkynhneigðir fögnuðu niðurstöðu þingsins.fréttablaðið/AP
Dálítil hátíðarstemning ríkti í gær fyrir utan þinghúsið í Lissabon þar sem samkynhneigðir fögnuðu niðurstöðu þingsins.fréttablaðið/AP

Þjóðþingið í Portúgal samþykkti í gær með 125 atkvæðum gegn 99 lagabreytingu sem heimilar samkynhneigðum íbúum þessa kaþólska lands að ganga í hjónaband.

Lagabreytingin er einföld, því einungis er sleppt því orðalagi núgildandi laga að hjónaband geti einungis verið milli tveggja einstaklinga hvort af sínu kyninu.

„Þetta er lítil breyting á lögum, það er rétt,“ segir Jose Socrates forsætisráðherra, sem lagði mikla áherslu á að þessi breyting væri sjálfsagt réttlætismál.

„En þetta er mjög mikilvægt og táknrænt skref í áttina að því að tryggja virðingu fyrir gildum sem eru grundvöllur hvers lýðræðislegs, opins og umburðarlynds samfélags: gildi frelsis, jöfnuðar og þess að mismuna ekki fólki.“

Socrates segir lagabreytinguna lið í nútímavæðingu Portúgals, en þar í landi taldist samkynhneigð vera glæpur allt til ársins 1982. Fyrir tveimur árum aflétti stjórn hans banni við fóstureyðingum þrátt fyrir harða andstöðu kaþólsku kirkjunnar.

Forseti landsins, hinn íhaldssami Anibal Cavaco Silva, getur þó neitað að staðfesta lögin, en þá fær þingið þau aftur til meðferðar og getur með auknum meirihluta gert neitunarvald forsetans að engu.

Verði lögin staðfest geta fyrstu samkynhneigðu pörin gengið í hjónaband í apríl, mánuði áður en Benedikt páfi kemur í heimsókn til landsins.

Í nágrannalandinu Spáni voru hjónavígslur samkynhneigðra leyfðar fyrir fjórum árum. Íbúar beggja landanna eru að miklum meirihluta kaþólskir og fyrri tilraunir í báðum löndunum til að heimila hjónavígslur samkynhneigðra höfðu áður strandað á harðri andstöðu kristinna hópa og íhaldssamra þingmanna.

Í þetta sinn gekk málið þó greiðlega í gegnum þingið og fulltrúar samkynhneigðra fagna því að landið sé komið í fremstu röð varðandi réttindi samkynhneigðra.

Hjónavígslur samkynhneigðra eru nú leyfðar í Belgíu, Hollandi, Svíþjóð, Noregi, Kanada, Suður-Afríku og á Spáni auk þess sem sex af ríkjum Bandaríkjanna hafa lögleitt þær.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×