Erlent

Þóttist vera breskur lögreglumaður í þrjú ár

Þessir lögreglumenn eru raunverulegir. Eða hvað?
Þessir lögreglumenn eru raunverulegir. Eða hvað?

Bretinn, Stuart Howatson, var dæmdur í tuttugu mánaða fangelsi fyrir að þykjast vera lögreglumaður í Bretlandi í þrjú ár. Stuart, sem er 31 árs gamall, óf sinn blekkingarvef svo vel að jafnvel eiginkonan hans vissi ekki betur en að hún væri gift stálheiðarlegum lögreglumanni.

Stuart gekk svo langt að frátaka stól í brúðkaupi sínu fyrir yfirmann lögreglunnar í London. Þegar hann lét ekki sjá sig laug Stuart að öllum að hann hefði ekki komist vegna vandræða við öryggisvörsluna við brúðkaupið.

Þá hélt Stuart ræðu í barnaskóla og lýsti fyrir þeim erfiðu starfi lögreglumannsins. Þar leyfði hann börnunum meðal annars að meðhöndla lögreglukylfu sem hann var með.

Það var svo á síðasta ári sem lögreglan, þessi raunverulega það er að segja, fékk ábendingu um að Stuart væri að þykjast vera lögreglumaður. Hann var handtekinn og lögreglubúningur og margvísisleg tól og tæki sem lögreglan notar við sín daglegu störf, voru gerð upptæk.

Spurður hvar hann fékk lögreglubúninginn sagðist Stuart hafa pantað hann á e-bay.

Stuart er enginn engill þó svo hann hafi þóst vera lögreglumaður. Á heimili hans fundust ósæmilegar myndir af börnum.

Stuart játaði glæpi sína skýlaust og var dæmdur í 20 mánaða fangelsi. Lögregluyfirvöld í Bretlandi líta málið afar alvarlegum augum enda hætt við að almenningur treysti lögreglumönnum verr í kjölfarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×