Viðskipti innlent

Skörp hækkun á gengi SPRON

Raunhækkun stofnfjár nemur um 87 prósentum það sem af er ári.
Raunhækkun stofnfjár nemur um 87 prósentum það sem af er ári.

Yfir þrjátíu prósenta hækkun hefur orðið á gengi stofnfjárbréfa í SPRON frá því um miðjan júní. Bréfin, sem ganga kaupum og sölum á stofnfjármarkaði SPRON, fóru úr 3,2 krónum á hlut í yfir 4,2 krónur í umtalsverðri veltu.



Kjartan Freyr Jónsson, verðbréfamiðlari hjá SPRON, segir að eftirspurnin sé óvenjumikil miðað við árstíma og var hún einfaldlega mun meiri en framboð þeirra bréfa sem var til sölu.



Kjartan Freyr telur að ekkert eitt skýri þessa hækkun. Einhverjar væntingar eru um gott uppgjör hjá SPRON fyrir fyrstu sex mánuði ársins en hagnaður félagsins nam tæpum 4,7 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi. Þá er líklegt að hækkun á stofnfjárbréfum í Byr og SPK og á innlendum hlutabréfamarkaði hafi smitað út frá sé. „Þetta er nákvæmlega það sem er að gerast inni í Kauphöll. Þar er allt á fullu.“



Raunhækkun stofnfjár SPRON nemur yfir 87 prósentum frá áramótum, að teknu tilliti til arðgreiðslna og sérstaks endurmats stofnfjár fyrir síðasta ár. Markaðsverðmæti sjóðsins er komið í rúma 88 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×