Viðskipti innlent

OpenHand semur við stórt alþjóðlegt fjölmiðlafyrirtæki

Davíð Guðmundsson, markaðsstjóri OpenHand, og Þuríður Hjartardóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Davíð Guðmundsson, markaðsstjóri OpenHand, og Þuríður Hjartardóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið OpenHand hefur selt alþjóðlega samskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu arvato AG hugbúnað vegna nýrrar þjónustu sem væntanleg er á markað í Þýskalandi.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá OpenHand eru nokkrar samskipalausnir samtvinnaðar í eina áskriftarleið og verður þannig hægt að nota tölvupóstþjónustu, skilaboðaþjónustu eins og MSN, tala í gegnum Netið og skoða og skrá fundi á dagatali. Þáttur OpenHand felst í því að útvega þá lausn sem veitir viðskiptavinum aðgengi að tölvupósti, dagatali og tengiliðalista. Þjónustan byggir á GPRS gagnaflutningum en einnig er nýtt tækni þriðju kynslóðar farsímakerfa.

Enn fremur kemur fram í tilkynningunni að samningurinn sé mikil viðurkenning fyrir OpenHand því viðskiptavinir arvato AG eru mörg hundruð þúsund.

Fyrirtækið arvato AG rekur meðal annars fjölmiðla, hýsingaþjónustu, fjarskiptafyrirtæki, greiningafyrirtæki, gagnaveitu, markaðsfyrirtæki og prentfyrirtæki um heim allan. Í gegnum póstkerfi fyrirtækisins fara um 650 milljónir tölvupósta ár hvert. Hjá fyrirtækinu starfa 47 þúsund starfsmenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×