Viðskipti innlent

Hagnaður Samkaupa rúmar 296 milljónir

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mynd/samkaup
Velta Samkaupa og dótturfélagsins Búrs, var tæplega 23,5 milljarðar á árinu 2013 og jókst um tæp 3,6% frá fyrra ári. Hagnaður félagsins eftir skatta var rúmar 296 milljónir. Þetta kom fram á aðalfundi Samkaupa sem var haldinn 19. mars síðastliðinn.

Samkaup reka 48 verslanir undir merkjum Nettó, Kaskó, Samkaup úrval og Samkaup strax, verslanirnar eru á 34 stöðum um allt land. Starfsmenn félagsins á árinu 2013 voru 874 í 498 stöðugildum.

Hluthafar Samkaupa voru 177 í lok árs 2013. Kaupfélag Suðurnesja ásamt dótturfélögum átti 62,9% hlut og Kaupfélag Borgfirðinga ásamt dótturfélagi átti 21,9%.

Aðrir hluthafar áttu minna en 10% hver um sig. Kaupfélag Suðurnesja var stofnað í Keflavík árið 1945 og nær starfssvæði þess nú yfir Suðurnesin, Hafnarfjörð, Garðarbæ, Kópavog, Seltjarnarnes og Reykjavík. Félagar eru tæplega 5.000.

Kaupfélag Borgfirðinga var stofnað árið 1904 og nær félagssvæði þess frá Breiðafirði suður í Hvalfjörð. Félagar eru rúmlega 1.500.

Verslanir Samkaupa voru margar hverjar reknar áður af kaupfélögum. Samkaup hafa gert samninga við öll kaupfélög á starfssvæðum verslana félagsins, um afsláttarkjör fyrir félagsmenn kaupfélaga.

Í dag notfæra sér meira en 30.000 félagar kaupfélaga um allt land þessi afsláttarkjör í verslunum Samkaupa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×