Viðskipti innlent

Skapar 25 ný fyrirtæki, 150 störf og 300 milljónir í gjaldeyri

Viðskiptasmiðjan hefur skapað 25 ný fyrirtæki, 150 ný störf, ríflega 500 milljóna króna fjárfestingu og 300 milljónir í gjaldeyristekjur.

Þetta kemur fram í tilkynningu fá smiðjunni sem segir að Viðskiptasmiðjan - hraðbraut nýrra fyrirtækja hafi sannað mikilvægi sitt á fyrsta námsárinu. Þetta eru góðar fréttir vegna þess að það þýðir að hægt er að skapa störf þó að hagkerfið sé í niðursveiflu.

Ný sprotafyrirtæki geta skapað ný störf, fjárfestingu og gjaldeyristekjur, sem er lykillinn að farsælli framtíð þjóðarbúsins. Í Viðskiptasmiðjunni eru mörg af áhugaverðustu sprotafyrirtækjum landsins sem eiga eftir að skapa miklu fleiri störf, fjárfestingu og gjaldeyristekjur á komandi árum.

Áætlað er að það verði til 20 til 30 ný sprotafyrirtæki á Íslandi námsárið 2008-2009 í Viðskiptasmiðjunni. Frá september 2008 fram til febrúar 2009 hafa 15 ný fyrirtæki verið stofnuð í Viðskiptasmiðjunni og má því áætla að líklegt sé, m.v. aukinn fjölda frumkvöðla í Viðskiptasmiðjunni, að 20-30 ný fyrirtæki verði stofnuð á námsárinu 2008- 2009.

Áætlað er að ný störf sem sköpuð verða í fyrirtækjum Viðskiptasmiðjunnar verði um 150 talsins á námsárinu 2008-2009. Starfaaukningin gerist með tvennum hætti. Annars vegar eru stofnuð ný fyrirtæki með 2-3 starfsmenn að meðaltali. Hins vegar eru þau sprotafyrirtæki sem þegar er búið að stofna þegar þau koma í Viðskiptasmiðjuna líkleg til þess að bæta við sig starfsmönnum þegar ný vaxtarstefna kemur til framkvæmdar.

Áætlað er að frumkvöðlar, ættingjar og vinir þeirra, styrktarsjóðir, viðskiptaenglar og áhættufjárfestingasjóðir muni fjárfesta rúmlega 500 milljónum króna í sprotafyrirtækjum Viðskiptasmiðjunnar.

Áætlanir gera ráð fyrir að fyrirtæki Viðskiptasmiðjunnar muni skapa rúmlega 300 milljónir í gjaldeyristekjur á námsárinu 2008-2009. Allar líkur eru á að þessi fyrirtæki muni tvöfalda þá upphæð strax á næsta ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×