Viðskipti innlent

Afnám gjaldeyrishafta er lykilatriði í fyrstu endurskoðun AGS

Heilsteypt áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna verður lykilatriði í fyrstu endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á endurreisnaráætlun sjóðsins fyrir Ísland.

Þetta kemur fram í máli Mark Flanagan nýs formanns sendinefndar AGS sem væntanleg er til Íslands á morgun. Viðtal við Flanagan um það sem framundan er í samskiptum AGS og Íslands hefur verið birt á vefsíðu AGS í Washington.

Meðal þess sem fram kemur í máli Flanagan er að kosningarnar framundan ættu ekki að hafa sérstök áhrif á samstarfs AGS og Íslands. Og AGS hefur ekki áhyggjur af nýrri ríkisstjórn Íslands enda hefur hún sagt að staðið verði við fyrri samninga við sjóðinn.

Flanagan telur að fyrstu markmið áætlunar AGS fyrir Ísland, það er að koma stöðugleika á gengi krónunnar, sé um það bil að takast. Þetta ætti að koma heimilum og fyrirtækjum til góða, það er þeim sem borga þurfa af myntkörfulánum.

Fram kemur í máli Flanagan að AGS hafi borist fjöldi af tölvupóstum og fyrirspurnum frá áhyggjufullum erlendum fjárfestum sem eiga kröfur á hendur bankanna sem hrundu eða hafa frosið inni með fjárfestingar sínar á Íslandi. Hann segir að AGS hafi bent þessu fólki á að hafa samband við skilanefndir bankanna.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×