Viðskipti innlent

Íbúðaverð aldrei lækkað jafnmikið milli mánaða síðan 2000

Samkvæmt mælingum Hagstofunnar lækkaði íbúðaverð á landinu öllu um 3% í febrúar frá fyrri mánuði sem meiri lækkun á milli mánaða en sést hefur frá upphafi vísitölunnar árið 2000.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að húsnæðisverð hafi nú lækkað um 6,2% að nafnverði undanfarna 12 mánuði sem samsvarar því að raunverð húsnæðis hafi á sama tíma lækkað um rúmlega 20%. Ljóst er út frá þeim aðstæðum sem nú ríkja í hagkerfinu að frekari lækkun húsnæðisverðs á næstu misserum er framundan.

Algjör viðsnúningur hefur nú orðið á húsnæðismarkaði. Viðsnúningurinn var hafin áður en fjármálakreppan brast á í haust en kreppan gerir það að verkum að viðsnúningurinn verður mun snarpari og meiri en ella.

Núna, fimm mánuðum eftir að bankahrunið skall á og rúmlega ári eftir að íbúðaverð náði hápunkti ríkir gríðarlegt frost og óvissa á íbúðamarkaði og tímabil verðlækkunar er hafið. Á síðasta ári lækkaði íbúðaverð um 3% að nafnverði og um tæplega 18% að raunvirði.

Gera má ráð fyrir því að íbúðaverð hefði lækkað enn meira ef ekki væri fyrir aukna tíðni makaskiptasamninga í fasteignaviðskiptum sem halda verðinu uppi. Umsvifin á íbúðamarkaði eru nú aðeins brot af því sem áður var en á síðasta ári dróst veltan á íbúðamarkaði saman um 65%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×